Er virkilega verið að svíkja eldri borgara og öryrkja?

Ég bloggaði fyrir helgi um meint svik ríkisstjórnarinnar við eldri borgara og öryrkja í tengslum við aðkomu ríkisins að kjarasamningum. Deilan snýst um hversu mikið almannatryggingar áttu að hækka í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga. Ég ákvað í framhaldinu að bíða eftir viðbrögðum ráðherra við yfirlýsingum samtaka aldraðra, öryrkja og Alþýðusambandsins. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var innt eftir svörum um helgina kom harla lítið fram hjá henni og í raun er það enn óupplýst hvort ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt það sem hún lofaði fyrir örfáum vikum síðan.

Á fundi félags- og tryggingamálanefndar í morgun óskaði ég eftir því að fulltrúar ÖBÍ, Landssambands eldri borgara og ASÍ yrðu kallaðir fyrir nefndina til komast til botns í þessu máli. Það verður því væntanlega haldinn fundur fljótlega þar sem að þetta mál verður skýrt nánar fyrir félags- og tryggingamálanefnd Alþingis.

Ég hef fundið fyrir mikilli gremju og reiði hjá almenningi vegna þessa máls. Það er eðlilegt því eins og allir muna þá lofuðu allir flokkar úrbótum í þessum málaflokki en af viðbrögðum að dæma þá hafa margir orðið fyrir miklum vonbrigðum með Jóhönnu Sigurðardóttur í þessum málaflokki. Miðað við verðbólguhorfur þá eru allar líkur til þess að kjör aldraðra og öryrkja muni að raungildi skerðast umtalsvert á þessu ári. Þessir hópar hafa ekki breiðustu bökin þegar kemur að afborgunum af húsnæðislánum og almennri dýrtíð í samfélaginu. Ég bendi á að Björgvin Guðmundsson, bloggari og samfylkingarmaður, hefur ítrekað vakið athygli á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum og á hann hrós skilið fyrir það.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband