Ingibjörg Sólrún = Davíð Oddsson?

Ég spurði utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, á Alþingi í morgun um skipan nýs sendiherra í utanríkisþjónustunni. Sú ákvörðun kom mér á óvart í ljósi þess að nú á að fækka sendiráðum og sendiherrum.

Nýr sendiherra, Kristín Árnadóttir, er vafalaust ágætis manneskja og búin mörgum kostum. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að hún hefur einungis unnið í ráðuneytinu í eitt ár sem verkefnaráðinn starfsmaður. Hún er jafnframt einn nánasti samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar til margra ára og var til að mynda kosningastjóri Kvennalistans þegar Ingibjörg Sólrún var fyrst kjörin á Alþingi fyrir þann ágæta flokk og síðar aðstoðarmaður Ingibjargar í tíð hennar sem borgarstjóra Reykjavíkur.

Vafalaust hefur verið gengið fram hjá mörgum hæfum einstaklingum í utanríkisþjónustunni við þessa skipan, konum sem körlum, ungum sem og þeim sem eldri og reynslumeiri eru.

Með þessu er Ingibjörg Sólrún að feta í fótspor Davíðs Oddssonar sem skipaði 9 sendiherra í stuttri utanríkisráðherratíð sinni. Margir af þeim voru pólitískir bandamenn foringjans. Ingibjörg Sólrún hefur nú á rúmu ári skipað 4 sendiherra, þ.á.m. fyrrum þingmann Sjálfstæðisflokksins og nú Kristínu Árnadóttir, fyrrum aðstoðarmann sinn.

Þegar Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra gaf hún út yfirlýsingu þess efnis að engir nýir sendiherrar yrðu skipaðir í hennar tíð á síðasta kjörtímabili. Það var meðal annars vegna þess að sendiherrar voru orðnir gríðarlega margir eftir tíð Davíðs í ráðuneytinu.

Ég man að Samfylkingin gagnrýndi Davíð harðlega á sínum tíma fyrir pólitískar embættisveitingar. Ég get ekki betur séð en að Ingibjörg Sólrún sé að gera nákvæmlega sömu hluti og hún gagnrýndi Davíð fyrir á sínum tíma. Dæmi svo hver fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband