Alþingi og dómstólar

Það er mikil undiralda í þjóðfélaginu. Veröld margra hefur hrunið og fólk er hugsi. Við þessar aðstæður er eðlilegt að fram komi hugmyndir og kröfur um róttækar breytingar á því kerfi sem við búum við bæði í viðskiptum og stjórnmálum.

Eitt af því sem hvað oftast heyrist er það að löggjafarvaldið sé of veikt og illa í stakk búið til þess að gegna hlutverki sínu. Sérstaklega sé staða þess veik gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég þekki það vel af setu minni á þingi að þetta er því miður raunin. Þegar eins stór hluti þingmanna og raun ber vitni gegnir embætti ráðherra stendur þingið þegar höllum fæti. Þegar síðan við bætist að hver ráðherra hefur ráðuneyti á bak við sig til að vinna að sínum málaflokkum en þingmenn hafa mun minni aðgang að aðstoð þá er ekki skrýtið að þingið fari halloka. Það sem er þó enn verra er það virðingarleysi sem sumir af handhöfum framkvæmdavaldsins sýna löggjafarvaldinu. Þegar ráðamenn taka stórar ákvarðanir við vandasamar aðstæður eins og nú eru uppi er eðlilegt að samvinna sé höfð við fulltrúa flokkana í þinginu og málin séu rædd á vettvangi þess. Það hefur ekki verið raunin og það er ríkisstjórninni til skammar.

Styrkjum Alþingi

En hvernig á að styrkja stöðu þingsins? Sú hugmynd hefur heyrst að fækka beri þingmönnum. Ég sé ekki hvernig það ætti að efla þingið og raunar held ég að það myndi þvert á móti veikja það. Þingmenn þrífast á sem mestum samskiptum við kjósendur sína. Það yrði ómögulegt að halda úti minnsta votti af persónulegum tengslum við kjósendur ef þingmönnum yrði fækkað um helming eins og heyrst hafa hugmyndir um. Þeirri hugmynd hefur einnig verið haldið á lofti að rétt sé að breyta kosningakerfinu. Ég held að það sé rétt að skoða hvaða möguleikar eru á því að auka möguleika á persónukjöri við kosningar. Ég er hins vegar alfarið andvígur hugmyndum um einmenningskjördæmi eða því að forsætisráðherra sé kjörinn beinni kosningu. Slíkt myndi sjálfkrafa búa til tveggja flokka kerfi hér á landi sem að mínu mati skaðar lýðræðið frekar en eflir það.

Ég held að lykillinn að því að styrkja þingið sé að skerpa skilin á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Hin augljósa leið til þess er sú að ráðherrar sitji ekki á þingi á sama tíma og þeir gegna ráðherraembætti. Ég vil sjá sem fyrst lagabreytingu þess efnis að ráðherrar afsali sér þingsæti sínu um leið og þeir setjast í ráðherrastól. Framsóknarmenn hafa lengi stefnt að þessu og á yfirstandandi þingi er endurflutt frumvarp þess efnis. Þetta er eðlilegt fyrsta skref. Fleiri verða að fylgja í kjölfarið en markmiðið hlýtur að vera að hefja þingið til vegs og virðingar, bæta stöðu þess og auka raunveruleg völd þess og möguleika til pólitískrar stefnumótunar.

Val á hæstaréttardómurum

Dómstólar mynda þriðju grein ríkisvaldsins og það er ekki síður mikilvægt að efla traust almennings á þeim. Að mínu viti er vandi dómstólanna ekki sá að þeir hafi ekki staðið sig. Vandinn er sá að ímynd þeirra hefur verið spillt með óeðlilegum afskiptum stjórnmálamanna af embættisveitingum innan dómstólakerfisins. Þarna er þörf á breytingum, þó ekki væri nema til þess að efla tiltrú almennings á kerfinu. Þar tel ég rétt að horfa til þess hvernig kerfið er byggt upp í Danmörku en þar er sérstök valnefnd sem sér um að velja úr hópi umsækjenda um dómaraembætti.

Við núverandi aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja lýðræði og gagnsæi í öllum ákvörðunum. Það að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins betur en verið hefur er mikilvægur þáttur í því gagnsæi og ég mun beita mér fyrir því af fullum krafti.

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband