Breytum rétt með nýrri Framsókn!

Á þeim umrótartímum sem við lifum krefst fólk breytinga. Almenningur gerir ríkar kröfur um mannabreytingar í stjórnmálaflokkum, ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti svo fátt eitt sé nefnt. Fólk gerir kröfur um siðbót í stjórnmálum, efnahagslífi og íslensku samfélagi. Við stöndum á tímamótum, við þurfum að byggja upp nýtt Ísland - frá grunni.

Hátt í þúsund manna flokksþing tók djarfa ákvörðun um síðastliðna helgi með vali á nýrri forystu. Þeir fulltrúar sem sóttu flokksþingið voru í raun að endurspegla vilja almennings í dag. Sigmundur Davíð, nýr formaður, hefur komið öflugur fram á sviðið og talað með þeim hætti að fólk leggur við hlustir þegar hann talar. Fólk kallar í dag eftir lausnum, lausnum á þeim gríðarlega vanda sem heimilin og fyrirtækin standa frammi fyrir. Ríkisstjórnin hefur því miður ekki komið með trúverðugar lausnir í þeim efnum.

Mikill meðbyr er með Framsóknarflokknum í kjölfar flokksþingsins. Miklar væntingar almennings gagnvart Framsóknarflokknum leggja ríkar skyldur á forystu flokksins að standa undir þeim. Á næstu misserum mun forysta flokksins mæla sér mót við fólk og fyrirtæki og kynna sínar áherslur um hvernig við viljum mæta þeim bráðavanda sem við okkur blasir.

Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar lagt sitt af mörkum til að leysa þá stjórnarkreppu sem nú ríkir. Allir, sem það á annað borð vilja, sjá að ríkisstjórnin veldur ekki verkefninu. Engin merki eru um neinar breytingar á þeim vígstöðvum. Skilyrði Framsóknarflokksins fyrir hlutleysi bráðabirgðastjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna er að kosið verði eigi síðar en 25. apríl, að ráðist verði í aðgerðir til að mæta vanda heimila og fyrirtækja og að sérstakt stjórnlagaþing verði kallað saman til að semja nýja stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið.

Á síðustu dögum hefur fjöldi einstaklinga gengið til liðs við Framsóknarflokkinn. Fólk vill hafa áhrif á sína framtíð og fyrirheit forystu flokksins um opin og lýðræðisleg vinnubrögð verða ekki orðin tóm. Breytum rétt með nýrri Framsókn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband