Ný vinnubrögð

Ég beindi fyrirspurn til utanríkisráðherra í þinginu í gær um skipan sendiherra. Þannig er mál með vexti að þegar losna embætti í stjórnsýslunni er almennt gert ráð fyrir því að auglýsa þau og ráða síðan hæfasta umsækjandann, þó það hafi nú gengið misjafnlega eins og dæmin sanna.

Frá þessu voru lengi í gildi tvær undantekningar sem sneru að embættum seðlabankastjóra annars vegar og embættum sendiherra hins vegar. Nú er eins og alþjóð veit búið að breyta lögum um Seðlabankann og stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra orðnar auglýsingaskyldar. En þá fór ég að velta fyrir mér hvað yrði með sendiherrana. Síðasta vígi lögvarinna pólitískra embættisskipana.

Það kom mér nokkuð á óvart að Össur Skarphéðinsson hefði ekkert hugleitt þetta mál. Hann tók hins vegar vel í fyrirspurnina og sagðist skyldu skoða málið. Ég þekki Össur að því að vera óhræddur við að taka ákvarðanir og hvet hann til dáða í þessum efnum.

Á síðustu árum hafa margir sendiherrar verið skipaðir í utanríkisþjónustunni. Vegna þessa ákvað Valgerður Sverrisdóttir að skipa engan sendiherra á sinni tíð í ráðuneytinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipaði hins vegar 4 sendiherra á sinni tíð, þar af einn stjórnmálamann og eina samverkakonu sína til margra ára.

Það var jákvætt að núverandi utanríkisráðherra skyldi hnykkja á því að hann ætlaði enga sendiherra að skipa á sínum tíma í embættinu. Að vísu er hann ekki með samning nema til 25. apríl en við vonum að hver sem tekur við haldi sig á sömu braut og sýni aðhald í rekstri utanríkisþjónustunnar.

Ég vona hins vegar að í framtíðinni verði sátt um að breyta lögum þannig að auglýsa beri stöður sendiherra. Æðstu embætti utanríkisþjónustunnar eiga ekki að vera bitlingar fyrir pólitíska samherja ráðherra á hverjum tíma. Þar eins og annars staðar á hæfni, menntun og reynsla að ráða úrslitum en ekki flokksskírteini.

Með því að smella hér má hlusta á orðaskipti mín og utanríkisráðherra um málið.


mbl.is Ekki íhugað að auglýsa embætti sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband