Að afloknum kosningum

Þá er þessum kosningum lokið. Stjórnmálaflokkarnir hafa endurnýjað umboð sitt og kjósendur sagt sína skoðun. Ekki er enn búið að mynda nýja ríkisstjórn en núverandi stjórnarflokkar náðu meirihluta eins og þeir höfðu stefnt að.

Verði það hlutskipti Framsóknarflokksins að vera í stjórnarandstöðu þá munum við takast af ábyrgð á við það hlutverk. Niðurstaða okkar í þessum kosningum var góð. Reykvíkingar kusu tvo öfluga fulltrúa flokksins á þing. Það sýnir að íbúar höfuðborgarinnar kunnu að meta það djarfa skref að tefla nýkjörnum formanni flokksins þar fram. Þá bættum við við okkur fylgi í öllum kjördæmum þrátt fyrir að sterkir forystumenn hefðu horfið á braut. Þetta sýnir að fólkið í landinu treystir hinni nýju Framsókn og kunni að meta markvissar tillögur okkar í efnahagsmálum. Við munum að sjálfsögðu róa að því öllum árum að stjórnarflokkarnir endurskoði afstöðu sinna til þessara tillagna, út á það gengur pólitíkin.

Formaður SUF orðaði það svo í viðtali á kosninganótt að þessar kosningar hefðu verið fyrri hálfleikur fyrir Framsóknarflokkinn. Ég er sammála því. Við þurftum að fara í naflaskoðun og gerðum það á flokksþingi okkar í janúar þar sem skipt var alfarið um forystu flokksins. En það var viðbúið að það þyrfti lengri tíma en þrjá mánuði til að endurvinna að fullu traust almennings. Niðurstaða kosninganna er hvatning fyrir okkur að halda áfram á brautinni sem grasrót flokksins hefur markað.

Ég vil þakka öllum þeim sem veittu okkur atkvæði sitt og öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í kosningabaráttunni. Án þrotlausrar vinnu sjálfboðaliða í flokknum hefði þessi barátta og þessi niðurstaða ekki verið möguleg. Ég hlakka til þess að hefja störf á nýju þingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband