Framtíð Framsóknar

Eins og alþjóð veit þá er nú er nýlokið einum sögulegustu þingkosningum síðari tíma hér á landi. Sú vinstrisveifla sem við sáum í þessum kosningum gefur til kynna að landslag íslenskra stjórnmála gæti verið varanlega breytt. Það verður í það minnsta langur tími þar til að Sjálfstæðisflokkurinn nær þeim styrk sem hann áður hafði.

Nú þegar rykið er að setjast að loknum kosningum þarf Framsóknarflokkurinn, líkt og aðrir stjórnmálaflokkar, að meta stöðu sína. Ég er stoltur af árangri flokksins í þessum kosningum. Flokkurinn bætti við sig fylgi um allt land og hefur nú þingmenn í öllum kjördæmum. Það er flokknum nauðsynlegt til að geta gegnt því forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum sem mikilvægt er að hann gegni. Árangurinn í þessum kosningum var stórt skref í endurreisn flokksins og staðfesting á því að kjósendur sjá og virða viðleitni okkar til endurnýjunar og þau skilaboð sem flokkurinn kom með frá flokksþingi okkar í janúar. Það er rétt að hafa það í huga að það eru aðeins liðin tvö ár frá verstu útkomu flokksins í alþingiskosningum í ríflega 90 ára sögu flokksins. Ég held að enginn hafi getað búist við því Framsóknarflokkurinn næði strax fyrri styrk, en við sýndum í þessum kosningum að við erum sannarlega á réttri leið.

Það er fyrst og fremst þrennt sem skilaði Framsóknarflokknum þeim árangri í kosningunum sem raun ber vitni. Í fyrsta lagi þá brást flokkurinn hraðar og betur en nokkur annar stjórnmálaflokkur við eðlilegri kröfu um endurnýjun í kjölfar þeirra hamfara sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi. Á flokksþingi í janúar tók grasrót flokksins í taumana og sýndi svo ekki verður um villst að það eru hinir almennu flokksmenn sem ráða ferðinni í flokknum. Nýr formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er 34 ára og undirritaður varaformaður flokksins hefur enn ekki náð þrítugu. Aldursforseti forystunnar er ritarinn, Eygló Harðardóttir, sem er 36 ára gömul og því ljóst að ungu fólki hefur verið falið það verkefni að leiða flokkinn á miklum umrótartímum. Þetta kunnu kjósendur að meta.

Í öðru lagi er ljóst að markviss og lausnamiðaður málflutningur flokksins í efnahagsmálum náði eyrum kjósenda. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf gefið sig út fyrir að vera flokkur öflugs atvinnulífs og hefur viljað hlúa að ungu fjölskyldufólki, en það er sá hópur sem ber uppi samfélagið. Hin nýja Framsókn setti fram róttækar og raunhæfar hugmyndir til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki. Þetta kunnu kjósendur okkar, og raunar margir aðrir, vel að meta.

Í þriðja lagi er ekki hægt að ná árangri í kosningum nema fyrir þrotlausa vinnu fólks. Í mínu kjördæmi, sem og um allt land hafa hundruð sjálfboðaliða lagt sitt af mörkum og unnið fyrir flokkinn án þess að ætla sér nokkuð í staðinn. Starf Framsóknarflokksins byggir á fórnfýsi þessa fólks sem á þúsund þakkir skyldar fyrir óeigingjarnt starf.

Að afloknum þessum kosningum er ég sannfærður um að Framsóknarflokkurinn á eftir að gegna mikilvægu hlutverki við endurreisn íslensks efnahags. Vinstri flokkarnir tveir hafa nú á að skipa meirihluta til að mynda starfhæfa stjórn og þurfa ekki atbeina Framsóknarflokksins til þess. Ég tel hins vegar að þær lausnir sem við höfum boðað og sú aðferðafræði og sýn á stjórnmálin sem við höfum tileinkað okkur geri það að verkum að aðkoma Framsóknar að landstjórninni sé nauðsynleg til að byggja landið okkar upp á ný. Ef það verður ekki nú þá verður það sannarlega að afloknum næstu kosningum. Endurreisn Framsóknarflokksins er rétt að hefjast.

Grein sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband