Um gildi samstöðu og samvinnu

Nú eru um fjórir mánuðir liðnir síðan við framsóknarmenn lögðum fram efnahagstillögur í 18 liðum til þess að koma til móts við þann mikla vanda sem blasir við skuldugum heimilum og fyrirtækjum. Vinstri græn og Samfylking hafa því miður ekki viljað fylgja þeim tillögum eftir – væntanlega vegna þess að þær koma ekki úr þeirra herbúðum.

 

Við upphaf sumarþings er ekki heldur að sjá að ný ríkisstjórn ætli með neinum hætti að leita leiða til þess að forða þúsundum íslenskra fjölskyldna frá því að fá tilsjónarmann yfir heimili sín. Það á sem sagt að bregðast við eftir að viðkomandi er kominn í þrot en ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Við framsóknarmenn teljum með öllu óásættanlegt að horfa upp á þessa þróun.

 

Í ljósi þess að ríkisstjórnin virðist vera gjörsamlega úrræðalaus er dapurlegt að samráð við stjórnarandstöðuna skuli ekki vera meira en raun ber vitni. Í öllum stjórnmálaflokkum má finna fólk sem hefur hugmyndir og tillögur að lausnum en því miður telja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar greinilega að eingöngu þeirra ráðgjafar hafi réttu lausnirnar og því er ekki einu sinni skotið á fundi með fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem ekki eiga sæti í ríkisstjórn að þessu sinni. Er það í samræmi við þá samstöðu og samvinnu sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað? Nei, þessi vinnubrögð eru í algjörri mótsögn við yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra.

 

Við framsóknarmenn viljum sjá róttækar aðgerðir til að hægt sé að byggja upp öflugt samfélag til framtíðar. Við höfum í einlægni lagt fram tillögur að lausnum í samráði við færustu sérfræðinga á sviði efnahagsmála í landinu. Aðgerðaáætlun sem ætti að minnsta kosti að vera einnar messu virði að fara yfir – þvert á línur stjórnmálanna.

 

Framsókn mun eftir sem áður, í samráði við sérfræðinga á sviði efnahagsmála, halda áfram að koma fram með tillögur til aðgerða.

 

Vonandi verður eitthvað hlustað þá. En miðað við allt, þá held ég að því miður verði raunin ekki sú.

Grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband