3.10.2007 | 17:20
Ekki byrjar það vel
Alþingi er komið saman, loksins! Umræður dagsins voru efnahagsmálin og hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Fjárlögin bera þess merki að ríkisstjórnin hefur gefist upp á að leysa úr þeim vanda sem nú blasir við í efnahagslífinu, undirliggjandi verðbólgu, þenslu og óstöðugleika. Fjárlagafrumvarp ársins 2008 er 17,2% hærra en frumvarpið sem lagt var fyrir þingið fyrir árið 2007! Það þarf að leita ansi mörg ár aftur í tímann til að finna hliðstæður. Það verður fróðlegt að heyra álit Seðlabankans og greiningadeilda bankanna á þessu frumvarpi...
Ég tók til máls um mótvægisaðgerðirnar. Byggðamálaráðherrann Össur gerði góðlátlegt grín að þessu öllu saman, dapurlegt að sjá hvernig annars sá ágæti maður hefur farið af stað sem ráðherra. Hann gaf íbúum sjávarbyggðanna miklar vonir með mörgum blaðamannafundum í sumar þar sem stærstu byggðaaðgerðum Íslandssögunnar var lofað. Nú þegar á reynir koma í ljós ómarkvissar og máttlausar aðgerðir, enda útbúnar án nokkurs samráðs við sveitarfélögin, sjómennina og útgerðina svo fátt eitt sé nefnt.
Þessi ríkisstjórn fer ekki vel af stað. Hún verður a.m.k. seint kölluð ríkisstjórn samræðu og sátta miðað við það sem á undan er gengið!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Facebook