Þvílíkar mótvægisaðgerðir!

Ný ríkisstjórn hefur það að forgangsverkefni að leggja niður Flutningsjöfnunarsjóð. Sjóðnum er ætlað að jafna flutningskostnað á bensíni og olíu um landið. Til dæmis er bensínið á Þórshöfn 3,30 kr. ódýrara en ella og gasolían 2,20 kr. Nú er það ljóst að verð á eldsneyti á landsbyggðinni mun hækka í kjölfar þessara "mótvægisaðgerða" ríkisstjórnarinnar, þó var það allt of dýrt fyrir. Þvílík skilaboð á þessum síðustu og verstu tímum fyrir margar byggðir landsins!

Stærsti smásöluaðilinn, Bónus, má eiga það að það er flutningsjöfnun á vörum fyrirtækisins, sama verð um allt land. Ég legg til að Jóhannes í Bónus verði kallaður til og ráðleggi ríkisstjórninni í þessum efnum. Því öll viljum við að það ríki jafnræði milli íbúa landsins í þessu sem öðru.

Ég verð að viðurkenna að niðurlagning Flutningsjöfnunarsjóðs kemur mér ekki algjörlega á óvart. Íhaldið hefur á síðustu 12 árum haft uppi tilburði að koma þessum sjóði fyrir kattarnef en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Samfylkingin hefur selt sig ódýrt og þessi ákvörðun er einungis lítill hluti af þeirri málefnalegu brunaútsölu sem fram fór á Þingvöllum síðasta vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband