4.10.2007 | 18:16
Úrræðalaus ríkisstjórn
Það var einkennilegt að tala við 1. umræðu fjárlaga ársins 2008 nú áðan, kominn í stjórnarandstöðu. Margt er gott í frumvarpinu, enda skiluðum við framsóknarmenn af okkur góðu búi.
En það er margt gagnrýnivert. Gjaldahlið fjárlagafrumvarps 2008 samanborið við frumvarp ársins 2007 er hækkun upp á 17,2%! Ætli það þurfi ekki að fara aftur fyrir þjóðarsáttina til að finna hliðstæðar hækkanir? Til tíma víxlhækkana launa og verðlags. Vonandi munu þeir tímar ekki renna upp aftur.
Um er að ræða þenslufjárlög sem munu kynda undir áframhaldandi óstöðugleika og verðbólgu. Fjármálaráðherrann telur fjárlagafrumvarpið frábært og blæs meðal annars á gagnrýni Seðlabankans, greiningardeilda og alþjóðastofnana á aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Ég man þá tíð er ég var formaður fjárlaganefndar að þá tók þáverandi ríkisstjórn mjög óvinsælar ákvarðanir, aðhaldsaðgerðir, til að koma böndum á verðbólguna og ná efnahagslegum stöðugleika. Það tókst, en var svo sannarlega ekki vinsælt á meðan á þeim aðgerðum stóð. Hin nýja ríkisstjórn virðist ekki hafa kjark til að ná tökum á efnahagsmálunum. Það á greinilega ekki að beita fjárlögunum sem hagstjórnartæki til að ná slaka í efnahagskerfið. Í raun er frumvarpið olía á eldinn, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Nú vantar framsóknarmenn í ríkisstjórn!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Facebook