5.10.2007 | 11:24
Loforð og efndir samgönguráðherrans
Kristján Möller, samgöngráðherra, talaði digurbarkalega um flutningskostnað á landsbyggðinni fyrir síðustu kosningar og sagði það forgangsmál að grípa til aðgerða til að lækka flutningskostnaðinn á landsbyggðinni. Síðan ganga yfir landsbyggðina miklar hamfarir í atvinnumálum með niðurskurði þorksstofnsins. Ráðherranum gafst því kjörið tækifæri til að fylgja þessu helsta stefnumáli sínu eftir í ljósi þessara erfiðleika. En hvað gerist? Ekkert! Þvert á móti er það stefna hans og félaganna í ríkisstjórninni að leggja niður flutningsjöfnun á bensíni og olíu sem mun leiða til hækkunar verðs á eldsneyti á landsbyggðinni, og var það nógu hátt fyrir hefði maður ætlað.
Ráðherrann fékk einnig kjörið tækifæri til að fylgja eftir aðal kosningamáli sínu, en kjörorðið var: "Vaðlaheiðargöng, strax!" Ekkert hefur verið því til fyrirstöðu að setja göngin út útboðsferil en þrátt fyrir mikil fyrirheit um samgöngubætur í svokölluðum mótvægisaðgerðum þá er ekkert um Vaðlaheiðargöng þar.
Ráðherrann gerði margt til að auka fylgi Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi sl. vor, þó var útkoma flokksins í því kjördæmi sú alversta yfir landið. Þrátt fyrir öll loforðin um ókeypis skólabækur fyrir framhaldsskólanemendur, Vaðlaheiðargöng strax og forgangsmálið um að lækka flutningskostnað! Nú hefur hins vegar komið í ljós að ráðherrann er ekki maður orða sinna, vakti væntingar fólks um framfarir, en staðreyndin er sú að um afturför er að ræða samanber hækkun á flutningskostnaði sem ríkisstjórnin er nú að beita sér fyrir.
Ég ætla ekki að rifja upp ummæli ráðherrans í aðdraganda kosninga um Grímseyjarferjumálið, ummæli hans um Einar Hermannsson og hina einlægu afsökunarbeiðni Kristjáns, sem kom 5 vikum síðar. Sú umræða á eftir að fara fram á vettvangi þingsins...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Facebook