Eftirminnilegt afmæli

Í dag var haldið upp á 50 ára afmæli Félags ungra framsóknarmanna í Keflavík. Það var ekki amalegt að eyða deginum í þeim félagsskap! 80-90 manns voru í veislunni, þar af þó nokkur hluti af þeim sem stofnuðu til félagsins á sínum tíma. Margar merkar ræður voru fluttar á þessum merku tímamótum, margar mjög eftirminnilegar.

Meðal þeirra sem tóku til máls voru Steingrímur Hermannsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og þingmaður kjördæmisins og Jón Skaftason, fyrrverandi þingmaður Reyknesinga (og Siglfirðingur). Jón minnti á að Framsóknarflokkurinn sótti mest fylgi á þeim tímum til unga fólksins en því miður er það staðreyndin að sú varð ekki raunin í nýafstöðnum kosningum og úr því þarf að bæta.

Af mörgum góðum ræðum hélt varaþingmaður flokksins í kjördæminu, Helga Sigrún Harðardóttir, magnaða hugvekju um stöðu og hlutverk Framsóknarflokksins. Inntak ræðunnar var að aldrei hefur verið eins brýn þörf fyrir öflugan Framsóknarflokk og í dag. Þörf fyrir öflugan, frjálslyndan, hófsaman og víðsýnan miðjuflokk. Helga stimplaði sig þarna hressilega inn sem eitt helsta efni Framsóknarflokksins nú um þessar mundir og fann ég meðal gesta að "fjallræða" hennar féll í mjög góðan jarðveg, svo vægt sé til orða tekið.

Það er ekki amalegt að vera framsóknarmaður eftir hugvekjurnar og móttökurnar í Reykjanesbæ í dag. Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband