8.10.2007 | 11:36
Hvað segir Ágúst Ólafur nú?
Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, sló sig til riddara með reglubundnum hætti á síðasta kjörtímabili með tali um óráðsíu í utanríkisþjónustunni. Það var einnig helsti málflutningur Samfylkingarinnar þegar kom að fjárlagaumræðunni að þar ætti helst að skera niður til að mæta þeim botnlausu útgjaldatillögum sem Samfylkingin lagði þá fram.
Ágústi var meðal annars tíðrætt um að hægt væri að loka sendiráðum og nýta frekar nútíma fjarskipti í samskiptum við aðrar þjóðir. En hver er veruleikinn í dag eftir að formaður Samfylkingarinnar er orðinn utanríkisráðherra? Jú, aldrei hefur utanríkisráðuneytið þanist eins út og undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Hækkun á fjárlagalið ráðuneytisins á milli fjárlagafrumvarpa áranna 2007 og 2008 er 21,2%! Þetta er forgangsröðun Samfylkingarinnar.
Gert er ráð fyrir að laun muni almennt hækka um 5,5% á næsta ári. Ríkisstjórnin leggur það hins vegar til að lífeyrir eldri borgara og öryrkja munu einungis hækka um 3,3% á næsta ári! Trúlega munu kjarabætur til þessara hópa ekki einu sinni halda í verðlagsþróun. Það voru oft á tíðum mikil átök á milli flokkanna í síðustu ríkisstjórn um framlög til þessara þjóðfélagshópa. Trygginga- og félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins þurftu oft á tíðum að heyja mikla baráttu við fjármálaráðherra Íhaldsins vegna þessa. En Samfylkingin liggur flöt.
Staðreyndin er þessi: Framlög til utanríkisþjónustunnar hafa aldrei verið hærri en nú og nær aldrei hækkað eins mikið á milli ára og nú. Tekjur lífeyrisþega munu trúlega skerðast að raungildi á næsta ári, á tímum mesta góðæris Íslandssögunnar. Er þetta forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar? Er nema von að spurt sé, hvað varð um öll fögru loforðin frá því í vor?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook