Alfreð á Alþingi

Ég borðaði með Alfreð Þorsteinssyni í hádeginu í dag í þinginu. Það hefur staðið lengi til að við hittumst en loksins varð það að veruleika í dag. Við fórum, ásamt nokkrum félögum úr þingflokknum, yfir stöðuna í pólitíkinni, ekki síst nýjan borgarstjórnarmeirihluta. Ég verð ekki var við annað en að fólk víða um land sé ánægt með nýjan meirihluta, enda augljóst að ekkert annað var hægt að gera í stöðunni.

Alfreð stóð sig frábærlega sem borgarfulltrúi á sínum tíma og byggði m.a. Orkuveitu Reykjavíkur upp sem stórveldi. Þrátt fyrir það hefur það ætíð verið þannig að sjálfstæðismenn hafa séð skæðan andstæðing í Alfreð og hefur hinni frægu smjörklípuaðferð verið óspart beitt í hans garð. Nú bregður svo við að íhaldið beitir smjörklípuaðferðinni almennt gegn Framsóknarflokknum í heild sinni. Slíkt verður ekki liðið þegjandi og hljóðalaust af hálfu okkar framsóknarmanna.

Annars var gaman að sjá það í dag að Alfreð þekkir marga þingmenn þeirra flokka sem stóðu að R-listanum á sínum tíma og fór vel á meðal fólks í dag. Sérstaklega var eftirtektarvert að miklir fagnaðarfundir voru með Alfreð og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur enda áttu þau langt og gott samstarf í borgarstjórn.

Annars var maturinn gómsætur, enda lambakjöt á boðstólnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband