20.10.2007 | 12:20
Lífsgæðakapphlaupið, mikil viðbrögð
Ég bloggaði í gær um lífsgæðakapphlaupið og það yfirgengilega vinnuálag sem herjar á okkur sem þjóð. Ég hef fengið mikil viðbrögð vegna bloggsins síðasta sólarhringinn og samkvæmt þeim samtölum og tölvupóstum sem ég hef fengið þá er mikill hljómgrunnur fyrir þessum sjónarmiðum í samfélaginu.
Það er auðveldlega hægt að komast á flug í þessum pælingum. Hugsa má sér langa helgi, fjölskylduhelgi, þar sem frídagar væru á fimmtudegi og föstudegi. Helgi sem væri sérstaklega tileinkuð samverustundum fjölskyldunnar. Einnig er ljóst að vinnudagurinn er of langur og það þarf því að stytta vinnuvikuna. Það er viðurkennt að afköst, framlegð, starfsfólks minnkar hlutfallslega eftir því sem vinnudagurinn er lengri þannig að afköstin munu ekki minnka eins mikið og ætla mætti þó svo að vinnudagurinn verði eitthvað styttur.
Hér er um stór mál að ræða sem við þurfum að ræða á opnum vettvangi. Ég vonast til þess að orðræða mín við félagsmálaráðherra sem væntanleg er í þinginu muni hreyfa við þessum málum. Aðgerða er þörf og þar þurfa allir að leggjast á eitt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook