21.10.2007 | 13:14
Engin stefna í kjaramálum
Kjarasamningar eru framundan, trúlega erfiðustu kjarasamningar hin síðari ár. Því er mikilvægt að hið opinbera móti sér raunverulega stefnu, nú þegar, um þau áhersluatriði sem hafa ber í huga í komandi kjarasamningum. Það sem veldur mér hugarangri, og hefur gert í mörg ár, er að hið opinbera skiptist í tvennt þegar kemur að kjarasamningum. Sveitarfélögin hafa sérstaka launanefnd og síðan hefur ríkið sína launanefnd.
Hið opinbera semur sitt í hvoru lagi sem hefur haft þær afleiðingar að starfsmenn sveitarfélaga bera kjör sín saman við starfsmenn ríkisins og öfugt. Þetta hefur haft þær afleiðingar að laun viðkomandi stétta hækka á víxl og engin raunveruleg stefna er mótuð af hálfu hins opinbera. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki til lengdar og brýnt að nú, á tímum óstöðugleika, taki ríki og sveitarfélög sig til og komi fram í viðræðunum sem ein heild, hafi sameiginlega eina launanefnd. Þannig er þá loksins hægt að hafa stjórn á hlutunum og forgangsraða hvaða stéttum hið opinbera vill hossa sérstaklega, t.a.m. þeim stéttum sem mennta yngstu kynslóðinni og þeim sem sjá um umönnun sjúkra.
Annars er það umhugsunarefni, sá aðstöðumunur sem er á milli sveitarfélaganna í landinu með hliðsjón af launahækkunum Reykjavíkurborgar til sinna starfsmanna, það vildu mörg önnur sveitarfélög gera en hafa ekki ráð á. Þess vegna þarf að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem eiga undir högg að sækja. Að sjálfsögðu eiga að vera sömu kjör hjá hinu opinbera fyrir sambærileg störf, ef breyting verður á því þá er illa fyrir okkur komið sem þjóð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook