22.10.2007 | 11:34
Blessuð sykursýkin
Ég greindist í sumar með sykursýki. Þessi sjúkdómur er ættareinkenni og mjög algengur sjúkdómur í föðurættinni. Það urðu því heilmiklar breytingar á mínu lífsmunstri í framhaldi af því. Ég þarf að passa vel upp á mataræðið ásamt því að sprauta mig þrisvar sinnum á dag. Þetta er býsna mikið bras allt saman en hefur gengið vel, so far so good.
Þar sem ég var nokkuð langt leiddur af sykursýkinni þegar hún uppgötvaðist þá bar ég þess líkamleg merki. Var orðinn mjög slappur svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Ég léttist í kosningabaráttunni um 6 kíló sem má rekja til sjúkdómsins og því ekki mikil vöðvamassi sem á var að byggja.
Því ákvað ég að byggja mig upp og hreyfa mig. Fékk mér einkaþjálfara og hef stundað ræktina eins og ég hef getað. Einkaþjálfari minn, Helgi, er náttúrulega bara snillingur og ég er í miklu betra formi í dag en áður. Það má því segja að sykursýkin hafi gert mér gott til að því leyti að ég stunda í dag mun heilbrigðara líferni en áður fyrr og er (vonandi) að komast í fanta form.
Þetta hefur leitt huga minn að því hvort stjórnvöld sinni í nægjanlega miklu mæli forvarnarstarfi þegar kemur að lýðheilsu? Einnig er vert að skoða hvort ekki sé rétt að styrkja almenning í því að hreyfa sig, t.d. með kostnaðarþátttöku vegna árskorta í ræktinni... Þessir þættir, hreyfing og mataræði, eru nefnilega besta lausnin varðandi það að bæta lýðheilsu og þar af leiðandi minnkar allur kostnaður í heilbrigðiskerfinu. Er verið að vinna markvisst að þessu af hálfu stjórnvalda?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook