24.10.2007 | 10:47
Sveitirnar í eigu örfárra auðmanna?
Í fréttum Stöðvar 2 um daginn kom fram að 15 af 60 bújörðum í Vopnafirði eru komnar í eigu eins aðila. Á fundi þingmanna NA-kjördæmis á Akureyri í gær með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi tók ég þetta m.a. upp og lýstu sveitarstjórnarmenn úr Eyjafjarðarsveit áhyggjum sínum af þessari þróun og áhrifum hennar á byggðirnar.
Ég held að fáir hafi gert ráð fyrir því að þróunin í uppkaupum yrði með þessum hætti. Ákveðinn hópur manna hefur efnast gríðarlega á undanförnum árum og sér nú mikil fjárfestingartækifæri í jörðunum. Það virðist vera takmarkið hjá sumum að eignast heilu firðina.
Ég tel að við þurfum að skoða jarða- og ábúðalög í ljósi þessarar þróunar. Löggjöfin á sínum tíma virðist hafa verið of stórt skref í frjálsræðisátt, því miður. Það þarf að skoða hvaða lög gilda í nágrannalöndum okkar. Þar eru nær alls staðar einhverjar skorður settar fyrir því hversu margar jarðir menn mega kaupa og jafnvel ábúðarkvöð sums staðar.
Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu upp á þingi og ég mun beita mér fyrir því. Ég veit að núverandi landbúnaðarráðherra er vel meinandi maður og vænti ég þess að hann bregðist við þessari þróun. Ekki viljum við sjá landið okkar í eigu örfárra einstaklinga?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Facebook