26.10.2007 | 14:25
Þurfa alþingismenn kjördæmaviku?
Fyrirsögn dagsins er spurning DV í gær til fólks á förnum vegi. Þar kom m.a. fram hjá viðmælendum að við gætum nýtt jóla- og sumarfríin til þess arna og almennt að við fengjum mikil frí. Þetta virðist vera ríkjandi sjónarmið og ég er sammála því að það á að lengja starfstíma Alþingis og vonandi verða loksins einhverjar breytingar í þeim efnum.
Hins vegar er það svo að kjördæmavikan er trúlega annasamasta vika ársins hjá okkur þingmönnunum (a.m.k. þingmönnum landsbyggðarinnar). Norðausturkjördæmið er gríðarlega stórt kjördæmi, nær frá Siglufirði austur á Djúpavog, og það er því mikið verk að hitta sveitarstjórnir og aðra aðila í þessari viku. Þessu fylgja mikil ferðalög en er um leið eitt skemmtilegasta starf þingmannsins, að eiga í samskiptum við fólk og heyra hvað því liggur á hjarta.
Ég kom til Reykjavíkur að austan í gærkvöldi. Nú er verkefnið að vinna úr því sem fram kom í fjölmörgum viðtölum sem við þingmenn höfum átt við marga aðila úr kjördæminu, ásamt því að sinna þeim erindum sem hafa hlaðist upp í formi tölvupósts og hefðbundins pósts þessa vikuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Facebook