29.10.2007 | 13:37
Þingstörfin framundan
Þingstörf hefjast á morgun að lokinni kjördæmaviku. Mig langar að renna yfir það sem er framundan hjá mér í þinginu í örfáum orðum. Ég mun vonandi fá að mæla fljótlega fyrir frumvarpi um að þriðjungur námslána breytist í styrk ljúki námsmaður námi á tilsettum tíma.
Síðan eru það fyrirspurnir. Nokkrar eru til Jóhönnu Sigurðar og snúa að biðlistum eftir búsetu hjá fötluðum og hvað sé í pípunum í fjárlagagerðinni til að stytta þá biðlista. Ég er einnig með spurningar um hvernig félagslega kerfið, sem hún var jú höfundurinn að, stóð þegar við framsóknarmenn tókum við félagsmálaráðuneytinu. Spurningar um styttingu á vinnuvikunni í tengslum við gerð kjarasamninga er einnig beint til hennar.
Fyrirspurn um eignarhald á bújörðum er beint til landbúnaðarráðherra. Fyrirspurn til viðskiptaráðherra um afnám flutningsjöfnunar á eldsneyti og jafnframt um aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í flutningsjöfnunarmálum. Fyrirspurn til félaga Össurar um vanda byggðarlaga á Austurlandi sem eru utan áhrifasvæðis stóriðjunnar.
Flest af þessu eru mál sem ég hef tekið fyrir hér á síðunni og hægt að sjá nánar um í eldri pistlum mínum. Síðan er það svo með þingið að það er ómögulegt að segja til um hvernig þingstörfin framundan þróast, sífellt koma upp mál sem þarf að taka upp í einum grænum á vettvangi þingsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook