30.10.2007 | 18:33
Hrafninn hefur engu gleymt!
Ég var gestur á Hrafnaþingi í dag hjá Ingva Hrafni Jónssyni. Hann rekur sjónvarpsstöðina ÍNN sem er tiltölulega nýlega komin í loftið. Mætti reyndar í þátt um daginn hjá sömu sjónvarpsstöð hjá Merði Árnasyni þar sem ég mætti Sigurði Kára Kristjánssyni. Það var fínn þáttur.
En þá að þættinum í dag. Hrafninn hefur engu gleymt. Hann var að venju með formála þar sem talað var tæpitungulaust t.a.m. um íslenska fótboltalandsliðið og ferðalög Össurar Skarphéðinssonar í framandi löndum. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf haft mjög gaman af Hrafninum og hlustaði mikið á hann á sínum tíma þegar hann var til húsa á Útvarpi Sögu.
Viðtalið sjálft var ágætt. Karlinn er þægilegur spyrill, enda hokinn af reynslu. Við ræddum um allt á milli himins og jarðar; Það sem hæst ber í þinginu, um Fjallabyggð, samgöngur og fleira.
En nú er Hrafninn kominn með eigin sjónvarpsstöð. Ég vona að þetta muni ganga vel hjá kappanum og get upplýst lesendur síðunnar um að ég verð með reglubundna þætti á stöðinni. Ég hef ekki verið þáttarstjórnandi í sjónvarpi fram til þessa, maður er alltaf að prófa eitthvað nýtt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook