Sorgleg umræða

Ég mælti áðan fyrir LÍN frumvarpinu hér í þinginu. Því miður líktist umræðan, að lokinni framsögu, sandkassaleik. Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu, fór í andsvar við mig og spurði af hverju ekki væri löngu búið að framkvæma þessa breytingu? Róbert Marshall, úr sama flokki, kom með eins ræðu. Samfylkingin fjallaði að öðru leyti nær ekkert efnislega um málið og tókst hetjulega að koma umræðunni niður á neikvætt plan, um annars jákvætt mál sem er mikið hagsmunamál fyrir íslenska námsmenn. Það verður að teljast afrek út af fyrir sig. Grétar Mar Jónsson kom með svipaða ræðu, fjallaði ekkert efnislega um málið. Það var innlegg Frjálslynda flokksins. Vinstri grænir tóku ekki þátt í umræðunni.

Í svari mínu til "stjórnarandstöðunnar í málinu" fór ég yfir verk okkar framsóknarmanna í menntamálum. Framlög til menntamála hér á landi jukust gríðarlega í tíð síðustu ríkisstjórnar en við erum meðal fremstu þjóða OECD þegar framlög til menntamála eru mæld. Þegar við framsóknarmenn komum í ríkisstjórn árið 1995 þá þurftum við að "hreinsa til" eftir fyrri ríkisstjórn, sem kratarnir Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir áttu sæti í. Sú ríkisstjórn hækkaði endurgreiðslubyrði námslána upp í 7%. Þegar við framsóknarmenn skiluðum af okkur var búið að lækka árlega endurgreiðslubyrði í 3,75%. Allar þessar aðgerðir kostuðu sitt, en það á ekki að líta á framlög til menntamála sem útgjöld heldur fjárfestingu til framtíðar.

Ég hvatti Samfylkinguna til uppbyggilegrar umræðu um málið en án árangurs. Hún henti grjóthnullungum úr glerhúsi með framkomu sinni í dag og stóð náttúrulega á gati þegar ég spurði af hverju núverandi ríkisstjórn gerði ekki ráð fyrir endurgreiðslu á námslánum LÍN í fjárlögum ársins 2008? Nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og lagði fram svipað þingmál á síðasta kjörtímabili!

Samfylkingin gerði heiðarlega tilraun til að eyðileggja umræðuna og lagði ekkert efnislega til hennar, það er þessum flokki til minnkunar. Að hugsa sér að þessi flokkur skuli kalla sig menntaflokk, sá heimagerði stimpill fylgir þeim ekki. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom með mjög gott innlegg í umræðuna og lýsti yfir góðum hug til málsins. Hann snupraði einnig Samfylkinguna með því að segja að hann styddi öll góð mál, hvort sem þau kæmu frá stjórnarliðum eða andstæðingum. Allt í einu upplifði ég að ég var kominn í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn aftur, a.m.k. í þessu máli og Samfylkingin sem fyrr föst í stjórnarandstöðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband