Röng nálgun á úrlausnina

Félagsmálaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Frumvarpið var að miklu leyti unnið undir forystu fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, enda er margt mjög gott að finna í frumvarpinu.

Ég gerði að aðal umfjöllunarefni mínu í umræðum um málið á Alþingi í dag það hróplega óréttlæti sem felst í kynbundnum launamun sem talinn er vera u.þ.b. 15-18% fyrir sambærileg störf. Þó er það svo að ekki er hægt að leita skýringanna í mismunandi menntunarstigi kynjanna enda hafa konur þar sótt mjög á karla og eru víðast hvar að fara fram úr þeim, sé litið til yngri kynslóða a.m.k. Refsigleðin sem hefur einkennt jafnréttislögin undanfarna áratugi hefur ekki skilað okkur jafnrétti þegar kemur að launum kynjanna.

Ég vil sjá aðra nálgun þannig að aðilar séu verðlaunaðir fyrir að standa vel að jafnréttismálum. Fyrirtæki í dag, svo dæmi séu tekin, búa við skattaívilnanir þegar kemur að framlögum til velferðar- og líknarmála. Trúlega vegna þess að stjórnmálamenn hafa viljað sjá breytingar í þá átt að auknum fjármunum yrði varið til þessara málaflokka.

Ég vil sjá að slík leið sé farin til að minnka launamun kynjanna þannig að þau fyrirtæki sem sýni fram á árangur í því að jafna launamuninn fái skattaívilnun. Þannig mætti t.d. hugsa sér 1/2 - 1% lækkun á tekjuskatti þessara fyrirtækja. Með þessu yrði meiri hvati fyrir atvinnulífið til að hækka laun kvenna sem myndi svo skila sér í hærri sköttum til ríkis og sveitarfélaga.

Ég er sannfærður um að með þessari nálgun þá munum við ná þeim árangri að launamunur kynjanna muni minnka og vonandi hverfa á almennum vinnumarkaði í framtíðinni. Þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, setti af stað verkefni sem fólst í jafnlaunavottun, þ.e. að viðurkenna ætti sérstaklega fyrirtæki sem væru til fyrirmyndar í launajafnréttismálum kynjanna. Ég vil ganga lengra og er á því að það eigi að umbuna þeim aðilum sem standa sig í því að útrýma því þjóðarböli sem launamunur kynjanna er.

Við Íslendingar komum með róttækar breytingar á fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfinni á sínum tíma. Með því bættum við réttindi feðra til aukinna samvista við börn sín og ekki síst bættum við réttindi barna til að eiga samvistir við bæði föður og móður. Það er löngu kominn tími á að eyða kynbundnum launamun. Við Íslendingar eigum að stefna að því gera slíkt, fyrstir þjóða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband