7.11.2007 | 15:23
Hrós dagsins
Ég var með fyrirspurnir í dag á Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra. Ég spurði Jóhönnu út í styttingu vinnuvikunnar. Ég benti þá staðreynd að við vinnum þetta 6-9 stundum lengur í hverri viku en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Þetta kemur að sjálfsögðu niður á heimilunum í landinu eins og ég hef fyrr farið yfir hér á blogginu. Jóhanna tók vel í þetta og ætlar að taka styttingu vinnuvikunnar upp á samráðsfundi ríkisstjórnarinnar með aðilum vinnumarkaðarins. Vonandi að sú umræða beri árangur.
Ég spurði félaga Össur hvort að hann væri reiðubúinn að skoða sérstaklega stöðu þeirra sveitarfélaga á Austurlandi sem eru utan áhrifasvæðis stóriðjunnar. Hann tók vel í það og sagðist ætla að skipa verkefnisstjórn með heimamönnum um málið. Ég benti á í seinna andsvari mínu að það væri þá eðlilegt í þeirri vinnu að skoða háan flutningskostnað sem bitnar á þessum sveitarfélögum. Sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin væri að leggja niður jöfnun á flutningskostnaði á eldsneyti sem mun hækka eldsneytisreikninga þessara byggðarlaga um tugi milljóna króna. Á sama tíma fá Vestfirðir 150 milljónir króna til að lækka flutningskostnað, sem er hið besta mál, en það eru mörg sveitarfélög sem glíma við sambærileg eða jafnvel erfiðari vandamál í byggðalegu samhengi en Vestfirðir. Það er því miður enn nokkuð langt í land að ríkisstjórnin átti sig á þessu.
En svör ráðherranna í dag voru bæði málefnaleg og jákvæð. Fyrir það fá þau Össur og Jóhanna hrós dagsins, sem er mjög sjaldgæft hér á þessari bloggsíðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Facebook