8.11.2007 | 15:45
Um staðnað húsnæðiskerfi og stefnu Sjálfstæðisflokksins
Nú eru farin að berast svör frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hin ýmsu mál sem vert er að kryfja til mergjar. Fékk í dag svar frá Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, um gamla húsnæðiskerfið sem hún átti svo ríkan þátt í að byggja upp:
1. Hver var fjárhagsleg staða Byggingarsjóðs verkamanna 31. desember 1998, á verðlagi ársins 2007?
Samkvæmt stofnefnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs, sem unninn var af sérstakri matsnefnd og áritaður af KPMG endurskoðun hf. fyrir hönd Ríkisendurskoðunar, var eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna 31. desember 1998 neikvætt um 16.162 millj. kr. eða 24.344 millj. kr. á núverandi verðlagi. Um var að ræða mat á heildarskuldbindingum sjóðsins fyrir allan lánstímann sem var 40 ár.
Eins og margir muna var gamla húsnæðiskerfið úr sér gengið og staðnað. Til viðbótar var Byggingarsjóður verkamanna nær gjaldþrota þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður eins og sjá má á svari frá ráðherranum. Ég vona hins vegar að félagsmálaráðherra muni ganga vel að eiga við fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að húsnæðismálunum en staðreyndin er sú að þeir ráðherrar hafa ætíð staðið á bremsunni þegar kemur að fjárframlögum til félagslegra þarfa í húsnæðiskerfinu.
Í reynd held ég að það sé í raun stefna Sjálfstæðisflokksins að draga markvisst úr félagslegum húsnæðisúrræðum. Því hef ég sent eftirtalda fyrirspurn inn í þingið:
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Garðabæ á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Garðabæ á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir á Seltjarnarnesi á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir á Seltjarnarnesi á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
Ég spyr að þessu því ég hef haft það á tilfinningunni að meirihlutar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og á Seltjarnarnesi hafi haft mun minni áhuga á uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis en R-listinn hafði á sínum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega öðruvísi þenkjandi en aðrir flokkar í íslenskri pólitík. En það mun koma í ljós síðar hér á blogginu...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook