17.11.2007 | 12:26
Um orðspor Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst
Guðmundur Ólafsson, sem kynnir sig sem fræðimann við Háskóla Íslands og við Viðskiptaháskólann á Bifröst, hefur að undanförnu verið tíðrætt um hátt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu. Ég get tekið undir með honum að hér er um mikið áhyggjuefni að ræða en er ósammála þeirri fáránlegu greiningu hans að það sé fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn, með liðsinni Íbúðalánasjóðs, sem hefur valdið þessari þróun með svokölluðum 90% húsnæðislánum.
Til upprifjunar þá var það síðasta ríkisstjórn sem kom fram með tillögur um 90% húsnæðislán sem taka átti gildi í áföngum á síðasta kjörtímabili. Ekki var ágreiningur um þetta stefnumið á milli stjórnmálaflokka, enda stóð ekki til að fara með lánin almennt í 90% fyrr en undir lok kjörtímabilsins, ef efnahagsaðstæður hefðu leyft það.
Bankarnir vöruðu hins vegar sérstaklega við því árið 2003 að ef of geyst yrði farið í þessar breytingar þá myndi það valda þenslu á húsnæðismarkaðnum. Því kom það verulega á óvart, haustið 2004, þegar bankarnir komu með offorsi inn á markaðinn með allt að 100% endurfjármögnunarlán. Afleiðingin var sú að hundruð milljarða streymdu út úr bönkunum til almennings sem nýtti fjármunina meðal annars í gríðarlega einkaneyslu. Á sama tíma auðveldaði Seðlabankinn þessi útlán bankanna með því að losa um bindiskyldu þeirra og því hægara um vik fyrir þá að dæla peningum út á markaðinn. Þessi aðgerð bankanna olli miklu meiri þensluáhrifum en títtnefnd stóriðjuuppbygging á Austfjörðum. Þess ber einnig að geta þegar bankarni ruddust inn á húsnæðismarkaðinn þá voru hámarkslán íbúðalánasjóðs 9,7 milljónir króna.
Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóður hefur í reynd boðið upp á 90% húnsæðislán allt frá stofnun sjóðsins árið 1999. Almennt lánshlutfall var þó 70% en þeir sem bjuggu við erfiðar aðstæður og þurftu sérstaka aðstoð við íbúðakaup áttu kost á svokölluðum viðbótarlánum og fór lánshlutfallið þá upp í 90%. Alls voru 13.500 viðbótarlán afgreidd á árunum 1999-2004. Þak var (og er) á hámarkslánum sjóðsins og lánaði hann eingöngu til íbúðakaupa en ekki einkaneyslu eins og bankarnir.
Eftir að bankarnir hófu innreið sína á fasteignamarkaðinn árið 2004 (þrátt fyrir aðvörunarorðin árið 2003) urðu stjórnvöld að svara þeirri spurningu hvort að halda ætti úti Íbúðalánasjóði. Svarið var að standa ætti vörð um Íbúðalánasjóð enda hefði hann mikilvægu hlutverki að gegna og var lánshlutfall sjóðsins hækkað í 90%, mun fyrr en áætlað hafði verið. Þrátt fyrir þetta þá drógust útlán Íbúðaláns saman á meðan að útlán bankanna jukust gríðarlega. Taumlaus útlán bankanna er því önnur megin skýringin þegar kemur að mikilli hækkun húsnæðisverðs. Þeim tókst þó ekki að hrekja Íbúðalánasjóð út af markaðnum eins og lagt var upp með, og eru eflaust flestir fegnir því að svo varð ekki.
Hin megin skýringin er stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bjóða upp lóðir í sinni eigu. Afleiðingin er sú að verð á lóðum hefur margfaldast á síðastliðnum árum og sveitarfélögin hafa hagnast um milljarða sem hefur auðvitað skilað sér út í húsnæðisverðið. Áður fyrr létu sveitarfélögin íbúum sínum í té lóðir á lágu verði en nú er lóðasalan orðinn einn stærsti tekjustofn margra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hin meginskýringin á því af hverju húsnæðisverðið hefur hækkað svo mikið sem raun ber vitni.
Það er áhyggjuefni fyrir orðspor Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst að fræðimaður á þeirra vegum skuli koma fram á völlinn með slíkar rangfærslur sem raun ber vitni. Ekki skyldi vera að málflutningur Guðmundar Ólafssonar helgist af því að ná fram pólitískum markmiðum frekar en að fjalla fræðilega um málaflokkinn? Skyldi kennsla hans í hagfræði við þessa háskóla vera með þessum hætti? Ég á bágt með að trúa því, en hvað á maður að halda?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook