18.11.2007 | 14:29
Obb bobb bobb
Eins og fram kom hér á blogginu í síðustu viku þá fullyrti Árni Páll Árnason að Samfylkingin hefði ekki haft nein áhrif á útgjaldaramma fjárlagafrumvarps ársins 2008. Með þeim málflutningi gerði hann tilraun til að forða Samfylkingunni undan þeim loforðum sem flokkurinn boðaði í aðdraganda síðustu kosninga, t.d. þegar kemur að kjörum lífeyrisþega.
Það skýtur því skökku við að lesa grein eftir Guðbjart Hannesson, þingmann Samfylkingarinnar, í Skessuhorni þann 14. nóvember síðastliðinn þar sem hann segir meðal annars þetta í upphafi greinar sinnar: "Nú eru liðnir nokkrir mánuðir frá kosningum og ný ríkisstjórn að semja sín fyrstu fjárlög og nýjar áherslur eru að koma í ljós". Þarna er Guðbjartur, réttilega, að benda á að Samfylkingin hefur sett sínar áherslur inn í fjárlagafrumvarp ársins 2008. Enda væri annað stórfurðulegt og slíkur flokkur ætti ekki mikið erindi í ríkisstjórn ef hann hefði ekki áhrif á fjárlagafrumvarpið.
Það er samt sem áður mikilvægt að þeir félagar, Árni Páll og Guðbjartur, setjist niður og samræmi málflutning sinn. Það gengur einfaldlega ekki að hrósa sjálfum sér af góðum hlutum sem í fjárlagafrumvarpinu má finna en í hinu orðinu að reyna að kenna öðrum um það sem miður fer.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook