Langanesbyggð í sóknarhug og eftirminnileg útför í Skagafirði

Ég gat því miður ekki mætt á ráðstefnu um atvinnumál í Langanesbyggð síðastliðinn laugardag. Það er lofsvert framtak hjá byggðarlögum sem glíma við mikla erfiðleika í ljósi mikils niðurskurðar á þorskveiðiheimildum að hafa frumkvæði af þessu tagi. Á fundum sem þessum koma fram hugmyndir íbúa sem vinna þarf betur að og um leið hvatning til frumkvæðis. Langanesbyggð á hrós skilið fyrir þetta framtak sitt sem mun vafalaust leiða einhverja góða hluti af sér. Ég á örugglega eftir að heyra í Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra, á næstunni.

Aðstæður innan sveitarfélagsins eru mjög ólíkar. Annars vegar er um Þórshöfn og nágrenni að ræða þar sem að mikill kraftur hefur einkennt atvinnulífið og þar með mannlífið. Hins vegar hefur Bakkafjörður átt undir högg að sækja og vonandi munu einhverjar tillögur líta dagsins ljós til að staða mála batni þar.

Ég er einn af þeim sem hef kallað eftir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hins vegar megum við ekki loka augunum fyrir því að það er fyrst og fremst frumkvæði heimamanna sem skiptir máli í atvinnusköpun. Ríkið á svo að styðja við góðar hugmyndir þannig að þær geti orðið að veruleika. Þannig skiptir það miklu máli að ríkisvaldið taki vel í hugmyndir og geri eitthvað raunverulegt til að úr þeim geti orðið.

En ástæður þess að ég gat ekki sótt atvinnumálaráðstefnuna sl. laugardag var útför Guttorms Óskarssonar, forystumanns framsóknarmanna í Skagafirði til áratuga. Ég man að á árunum mínum í Fjölbrautaskóla N-vestra á Sauðárkróki þá var Guttormur orðinn goðsögn í lifanda lífi, þannig var um hann talað. Útförin var hátíðleg og sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur, flutti einstaklega góð minningarorð um Guttorm. Þar fór maður sem lagði margt til samfélagsins á sinni ævi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband