Nei, hættið nú alveg!

Nú er búið að ákveða að sameina Veiðistjórnunarsvið (sem er staðsett á Akureyri) og Náttúrfræðisvið Umhverfisstofnunar. Þar með fækkar forstöðumönnunum um einn og á forstöðumaður hins nýja sviðs að vera staðsettur í Reykjavík. Þannig er veigamikið opinbert embætti flutt frá Akureyri til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er ekki í takt við fagurgala Samfylkingarinnar þegar rætt var um "störf án staðsetningar" fyrir kosningarnar í vor. Ég hef farið fram á utandagskrárumræðu í þinginu um þetta mál við umhverfisráðherra til að fá skýringar á þessu. Ég hef staðið í þeirri trú að Veiðistjórnunarsviðið hafi staðið sig vel í þeim verkefnum sem það hefur sinnt, hef m.a. heyrt í veiðimönnum sem hafa átt ágætt samstarf við Veiðistjórnunarsviðið.

Ég verð að segja eins og er að ég veit ekki alveg hvert þessi ríkisstjórn er að fara. Þessi áhersla ríkisstjórnarinnar kemur ofan í nær engar mótvægisaðgerðir gagnvart Akureyri vegna samdráttar í þorskveiðiheimildum, engan stuðning ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og ekki eru Vaðlaheiðargöng í sjónmáli. Það er náttúrulega leiðinlegt að þurfa að benda á þetta en hér er einungis um staðreyndir að ræða, því miður. Hvað skyldi bæjarstjórnarmeirihlutinn á Akureyri, sem er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, segja um stöðu þessara mála? Eða þá þingmenn stjórnarflokkanna í Norðausturkjördæmi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband