Löng umræða framundan um fjárlagafrumvarpið og vígsla Kárahnjúkavirkjunar

2. umræða fjárlagafrumvarps ársins 2008 verður á morgun. Ég á von á því að umræður um fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verði miklar og að venju verður trúlega talað inn í nóttina. Það er náttúrulega ófært að hafa slíkt háttarlag á og vonandi munu breytingar á þingsköpum sem nú er verið að vinna að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni.

En á morgun verður óhjákvæmilega farið yfir þá óvissu sem nú einkennir íslenskt efnahagslíf og þá staðreynd að ríkisstjórnin er ekki að nýta fjárlagafrumvarpið sem hagstjórnartæki til að sporna við þenslu og verðbólgu, því miður. Einnig má búast við því að stjórnarflokkarnir verði spurðir að því hvað hafi orðið um öll fögru fyrirheitin frá því fyrir kosningar í vor? Og í raun er það þannig að þegar rætt er um fjárlög næsta árs þá er allt undir. Eins og ég hef áður rakið hér í pistlum mínum þá er margt við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að athuga.

En ég á von á því að vera langt frameftir í þinginu á morgun. Á föstudag verður svo Kárahnjúkavirkjun vígð og læt ég mig ekki vanta á þann tímamótaatburð í sögu þjóðarinnar. Við framsóknarmenn höfum verið í forsvari fyrir þessari uppbyggingu sem við erum stolt af. Það kostaði mikil átök að koma þessu máli í höfn, en það tókst. Það má spyrja sig að því hver staða mála væri á Mið-Austurlandi í dag ef þessar framkvæmdir hefðu ekki farið af stað á sínum tíma?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband