30.11.2007 | 15:46
Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, ég er stoltur!
Ég var við vígslu Kárahnjúkavirkjunar nú áðan á Hilton hótel. Því miður var ekki flogið austur í morgun vegna veðurs en tæknimenn Landsvirkjunar gerðu sitt besta með því að hafa athöfnina í fjarfundi. Þetta var sérlega hátíðleg stund og margt sem flaug í gegnum hugann á meðan á athöfninni stóð.
Það hefur gengið á ýmsu í tengslum við þessar framkvæmdir, framkvæmdir sem eru náttúrulega stórkostlegt verkfræðilegt afrek. Mikil mótmæli og umræður um að þarna væri ekki nægilega vandað til verks og þar fram eftir götunum hafa einkennt þjóðfélagsumræðuna á síðustu árum. Trúlega hefur engin framkvæmd fengið eins mikla gagnrýni og verið mótmælt eins harðlega og Kárahnjúkavirkjun.
Framsóknarflokkurinn hefur fundið sérstaklega fyrir mikilli andstöðu við Kárahnjúkavirkjun. Það verður að segjast eins og er að andstæðingar framkvæmdarinnar hafa sérstaklega ráðist að Framsóknarflokknum í umræðunni. Það kemur í rauninni ekkert á óvart. Framsóknarflokkurinn leiddi þetta framfaramál til lykta, sem var síður en svo auðvelt pólitískt.
Ég er stoltur af því að tilheyra stjórnmálaflokki sem gafst aldrei upp í sinni baráttu að af þessari miklu framkvæmd yrði. Sumir aðrir stjórnmálaflokkar, líkt og Samfylkingin og Frjálslyndir, gáfust upp í þessum erfiða máli þannig að margir þingmenn skiluðu auðu þegar að atkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun kom eða voru á móti.
Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa í Reyðarfirði munu skila íslensku þjóðarbúi milljarðatugum í tekjum á næstu árum. Þannig verður áfram hægt að standa undir öflugu velferðarkerfi á Íslandi. Jafnframt er tryggt að Mið-Austurland verður blómlegt atvinnusvæði og ég fullyrði að ef að þessari framkvæmd hefði ekki orðið þá væri staða byggðarlaga á Mið-Austurlandi í dag graf alvarleg.
En það þarf að huga að öðrum þáttum í tengslum við þessa atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Samgöngubætur, uppbygging mennta- og heilbrigðismála er eitthvað sem ég get nefnt í fljótheitum. En það er efni í pistla síðar hér á síðunni. En til hamingju með daginn Austfirðingar og aðrir Íslendingar, þ.e. þeir sem studdu þessa framkvæmd. Stórum áfanga er náð.
Það er staðreynd að hluti þjóðarinnar var (og er) á móti þessari framkvæmd. Ég virði þau sjónarmið og trúlega er sá hópur landsmanna ekki að upplifa sömu tilfinningar og ég ber í brjósti í dag. Það er skiljanlegt. En vonandi verður í framtíðinni hægt að leiða saman sjónarmið nýtingarsinna og verndunarsinna. Því miður er enn langt í land í þeim efnum sýnist mér.
Ræs! sagði Össur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook