Færum starfshætti Alþingis til nútímans, yfirlýsingum VG svarað

Í gamla daga, þetta fyrir 30-40 árum, þá voru bæjarstjórnarfundir á Siglufirði langir, mjög langir. Svo langir að það keyrði úr hófi fram. Stundum hófust fundirnir um miðjan dag og gátu staðið fram á miðja nótt, jafnvel fram undir morgun. Gömul vinkona mín sem sat í bæjarstjórn á þessum tíma hefur sagt við mig að hún hafi ekki nennt að sitja undir þessu "málþófi", hún hafi margt annað haft við sinn tíma að gera. Hún snéri sér því að öðru en að sitja í bæjarstjórn.

Í dag eru aðrir tímar uppi þegar kemur að lengd funda á sveitarstjórnarstiginu. Nú standa fundir yfirleitt ekki lengi yfir og menn koma sér að kjarna málsins eins fljótt og hægt er. Þarna tala ég af eigin reynslu, sitjandi í bæjarstjórn Fjallabyggðar. Það má því segja að sveitarstjórnarstigið sé áratugum á undan Alþingi hvað þessi mál áhrærir. Ég er á því að það þurfi að færa starfsemi Alþingis til nútímans. Ég er jafnframt á því að það eigi að takmarka ræðutíma alþingismanna með einhverju móti.

Þær breytingar sem nú er verið að ræða í þinginu eru til bóta að mínu mati. Þó svo að við framsóknarmenn séum í stjórnarandstöðu þá viljum við standa að breytingum til bóta hvað þessi mál áhrærir. Ég er þess fullviss að Samfylkingin hefði á síðasta kjörtímabili ekki brugðist við líkt og við framsóknarmenn gerum nú í stjórnarandstöðunni.

Það er ríkur vilji fyrir því af hálfu okkar framsóknarmanna að leita leiða til að koma á breytingum á þingsköpum í sátt. Vonandi verður það lendingin. Málflutningur Vinstri grænna í dag er samt af þeim toga að það er ekki hægt að sitja þegjandi undir því. Þar segja Vinstri grænir meðal annars að verið sé "að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar fyrir sporslur sem ekki hafi í sjálfu sér neina grundvallaþýðingu fyrir stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu eða minnihluta á Alþingi. Það sé hins vegar að gerast í þessu máli, meirihlutanum og framkvæmdavaldinu í hag".

Þarna er verið að gefa eitthvað í skyn sem mér fellur ekki í geð og ég hafna því algjörlega að eitthvað misjafnt búi að baki þessum breytingum. Þó svo að ég sé í stjórnarandstöðu þá merkir það ekki að ég sé sjálfkrafa á móti öllu. Hvað þá að eitthvað misjafnt sé í gangi þó svo að ég standi með þorra þingheims, líkt og í þessu máli. Þessu verða Vinstri grænir að átta sig á.


mbl.is Ekki til umræðu að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband