5.12.2007 | 14:38
Óróleiki á Alþingi
Mikill tími fer þessa dagana í umræður um "störf þingsins" og um "fundarstjórn forseta" þannig að minni tími en ella fer í umræður um mikilvæg þingmál sem sum þarf að klára sem allra fyrst. Það verður að segjast eins og er að það á enginn einn sök þegar að tveir eða fleiri deila. Ég get í þeim efnum vísað í pistil minn um þingsköpin, svar mitt til Vinstri grænna hér á blogginu.
Hins vegar er það svo að ríkisstjórnarflokkarnir hafa algjörlega misst tökin í mörgum veigamiklum málum. Hægt er að nefna breytingar á stjórnarráðinu, sem er illa og flausturslega unnið. Án samráðs við þá aðila sem málið varðar. Hægt er að nefna fjárlagagerðina sem er í lausu lofti og í raun varla hægt að tala lengur um lausatök, heldur glundroða í þeirri vinnu. Í dag er svo allt í háalofti vegna þess að minnihluti fjárlaganefndar fékk ekki í hendur öll gögn sem varða Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli. Þarf að leyna einhverjum gögnum í því máli fyrir þingmönnum? Það fer því nokkuð mikill tími, eðlilega, í að ræða meðhöndlun þessara mála undir liðum eins og "störf þingsins" og um "fundarstjórn forseta".
Það er því margt á huldu með þinglokin að þessu sinni, það kæmi mér ekki á óvart að þau dragist eitthvað á langinn. En eitt er víst að vegsemd og virðing Alþingis í samfélaginu mun ekki aukast með þessu áframhaldi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Facebook