5.12.2007 | 20:39
Svar Ingibjargar Sólrúnar um opinber störf
Ég spurði ráðherra ríkisstjórnarinnar um stöðu mála þegar kemur að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Ég var formaður iðnaðarnefndar þegar síðasta byggðaáætlun var afgreidd, sem gildir árin 2006-2009, og þá var eitt af höfuðmarkmiðum þeirrar áætlunar fjölgun opinberra starfa. Ráðherrar áttu skv. þingsályktuninni að gera Alþingi grein fyrir þróun mála og hvert stefnir í þeim efnum. Svar utanríkisráðherra sem talaði svo fjálglega um málefni landsbyggðarinnar fyrir síðustu kosningar var harla lítilfjörlegt. Ingibjörg Sólrún má reyndar eiga það að vera fyrsti ráðherrann sem svarar þessari fyrirspurn, enda lítið mál þar sem að svarið er mjög lítilfjörlegt:
Starfsmönnum utanríkisráðuneytisins í Reykjavík hefur fjölgað um 2 á þessu ári. 6 ný störf urðu til fyrr á árinu á vegum þýðingarmiðstöðvar ráðuneytisins á Akureyri (það var reyndar Valgerður Sverrisdóttir sem stóð að því). Aðalskrifstofa Ratsjárstofnunar var flutt úr Reykjavík á Miðnesheiði, 8 störf (en reyndar sama atvinnusvæðið). Annars var svarið það að engin niðurstaða liggur fyrir um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni á næsta ári.
Ég á von á því að fá svör frá fleiri ráðherrum um þróun opinberra starfa. Það verður fróðlegt að sjá svar frá Þórunni Sveinbjarnadóttur, umhverfisráðherra, sem beitti sér sérstaklega fyrir því að leggja niður starf forstöðumanns Veiðstjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Akureyri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Facebook