Órói innan Samfylkingar - Össur biðlar til Framsóknar

Össur Skarphéðinsson hefur á nokkrum mánuðum gert ótrúlegar gloríur sem ráðherra. Meðal þess sem nefna má eru skrautlegar yfirlýsingar hans innan þings sem utan. En það verður ekki af félaga Össuri tekið að hann er litríkur og oft á tíðum skemmtilegur karakter. Þannig tók hann sig til í nótt og skrifaði um "hressa þrílembinga". Þar skrifar hann um þremeninga úr Norðausturkjördæmi, Jón Björn Hákonarson (sem er á þingi í fjarveru Valgerðar), Höskuld Þórhallsson og þann sem hér skrifar. Allt góðir og gegnir framsóknarmenn.

Þar hælir hann okkur "þrílembingunum" svo um munar. Það er náttúrulega mikill heiður að fá slíkt lof frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands og ekki get ég neitað því að okkur "þrílembingunum" þótti nokkuð til koma. Ég get einnig sagt um félaga Össur að það væri sjónarsviptir ef hann væri ekki meðal vor í þinginu því hann er með skrautlegri stjórnmálamönnum innan þings. Reyndar er það stundum svo að félagi Össur hagar málflutningi sínum með þeim hætti að ætla mætti að hann væri enn í stjórnarandstöðu. En það er annað mál.

Hins vegar vöktu miklar áhyggjur ráðherrans af litlu mannvali í Samfylkingunni athygli mína. Össur biðlar því mjög sterkt til okkar þremenningana að ganga í Samfylkinguna. Sagði það sárgrætilegt að horfa upp á okkur þrjá í Framsókn en ekki innan Samfylkingarinnar. Nú get ég alveg tekið undir það sem lesa má úr skrifum Össurar að það er ekkert gríðarlegt mannval í þingflokki Samfylkingarinnar. En að benda á það á eins opinberum vettvangi og heimasíða ráðherrans er mun ekki verða til þess fallið að styrkja samheldnina í þingflokki Samfylkingarinnar. Ekki var andrúmsloftið á þeim bænum gott fyrir enda alþekkt að litlir kærleikar eru á milli Ingibjargar og Össurar eins og alþjóð veit.

En af mér er það að frétta að ég hef ekki hugsað mér til hreyfings. Það er góð stemning í þingflokki Framsóknarflokksins. Það er mikill hugur í framsóknarmönnum þessa dagana og engan bilbug á okkur að finna. Hins vegar hef ég fundið fyrir óróleika í samfylkingarfólki að undanförnu sem sumt er farið að hugsa sér til hreyfings. Ætli Össur hafi ekki líka einhverjar áhyggjur af því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband