13.12.2007 | 20:29
Þvílík öfugmæli Geirs, hvað segir Davíð nú?
Ég varð nánast orðlaus þegar ég heyrði Geir H. Haarde segja úr ræðustól Alþingis í dag að fjárlög ársins 2008 væru aðhaldsfjárlög. Ja, þvílíkt og annað eins. Er hægt að snúa hlutunum meir á hvolf? Staðreyndin er sú að útgjaldahlið fjárlaga ársins 2008 er 18,1% hærra en fyrir ári síðan. Ber það vott um aðhald? Ég hef sagt það áður að við þyrftum trúlega að leita aftur fyrir þjóðarsáttasamninga til að sjá viðlíkar tölur.
Verðbólga síðustu 12 mánuði mælist nú tæp 6%. Ef dregin er frá matarskattslækkunin, sem hverfur í mælingum 1. mars næstkomandi, þá er undirliggjandi verðbólga 8%. Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5%. Undirliggjandi verðbólga er því 320% hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Allt bendir því til áframhaldandi hækkana stýrivaxta Seðlabankans sem mun bitna sérstaklega á skuldsettum heimilum, ofan í mikla verðbólgu.
Nei, þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé stór þá getur hann ekki breytt staðreyndum. Allir ráðgefandi aðilar, ásamt Framsóknarflokknum, hafa lagt hart að ríkisstjórninni að sýna aðhald. Þvert á móti hafa stjórnmálaflokkarnir á Alþingi, að Framsóknarflokknum undanskildum, keppst við að yfirbjóða hvern annan með útgjaldatillögum.
Til viðbótar þessum þenslufjárlögum þá hafa komið fram mjög miklar kröfur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um allt að 20 milljarða króna útgjöld ríkissjóðs vegna kjarasamninga. Ekki veit ég hvert svigrúm ríkissjóðs verður til að koma að kjarasamningunum, en ljóst er að nú þegar er boginn hátt spenntur í ríkisfjármálunum.
Það verður athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum aðila í þjóðfélaginu vegna orða forsætisráðherra, að hér sé um aðhaldsfjárlög að ræða. Sérstaklega verður fróðlegt að heyra fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, sem nú situr í Seðlabankanum, tjá sig um þessi ótrúlegu ummæli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook