14.12.2007 | 18:48
Samfylkingin hefur gjörbreytt um stefnu - einungis á nokkrum mánuðum!
Þó svo að Össur Skarphéðinsson hafi áhyggjur af mannvali í þingflokki Samfylkingarinnar þá held ég að menn á þeim bænum ættu að hafa meiri áhyggjur af málefnastöðu flokksins. Á síðasta kjörtímabili stundaði Samfylkingin málefnalega brunaútsölu. Ótti forystu flokksins við lítið fylgi leiddi til þess að málflutningur Samfylkingarinnar varð gjörsamlega ábyrgðarlaus og fór hreinlega út í tóma vitleysu. Yfirboð í hverju málinu á fætur öðru. Eitthvað sem öllum ætti að vera ljóst að ekki væri hægt að standa við.
Ég fór yfir þessar staðreyndir í fjárlagaumræðunni síðasta miðvikudag. Hægt er að nefna margt sem að Samfylkingin lofaði en hefur síðan gjörsamlega snúið við blaðinu á einungis 6 mánuðum. Það er út af fyrir sig ótrúlegt afrek að breyta grundvallarstefnunni með þeim hætti sem Samfylkingin hefur gert.
Samfylkingin boðaði stórhækkaðar barnabætur og vaxtabætur. Orð eins og að fjárframlög til þessara málaflokka væru til skammar og þar fram eftir götunum voru algeng. Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir gengu vasklega fram á þessum tíma í beittri gagnrýni. Gagnrýnt var hversu lítið bæturnar hefðu almennt hækkað í þá daga. Það var staglað var á því að þegar Jafnaðarmannaflokkur Íslands myndi komast til valda þá yrðu bæturnar stórhækkaðar, það væri forgangsmál. En hver er staðreynd mála eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn? Jú, vaxtabætur og barnabætur munu trúlega lækka að raungildi á næsta ári.
Áherslur Samfylkingarinnar hafa nefnilega gjörbreyst á síðustu mánuðum. Nú eru það stóraukin framlög til utanríkismála og fjölgun ráðuneyta (til að félagarnir Össur og Björgvin gætu báðir orðið ráðherrar) sem eru forgangsmál Samfylkingarinnar. Hækkun vaxtabóta, barnabóta og skattleysismarka eru einhvers staðar neðarlega á forgangslistanum. Flott breyting á forgangsröðun, eða hitt og heldur!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Facebook