Viljum við borgríki?

Fyrir síðustu kosningar töluðu frambjóðendur allra flokka fyrir því að standa ætti vörð um byggð um land allt. Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, töluðu frambjóðendur einum rómi í þessum málum, byggðamálum, enda málefni sem brennur mjög á því fólki á því kjördæmi. Ég finn einnig fyrir því að fólk á höfuðborgarsvæðinu vill sjá blómlega byggð víða um land. Það ætti því að vera hægðarleikur að ná fram þverpólitískri sátt um raunverulegar aðgerðir til að ná þessu markmiði. Að við tölum ekki um á þeim tímum þegar þorskkvótinn er skorinn niður um þriðjung.

Ég lagði fram fyrirspurnir til ráðherranna í nýju ríkisstjórninni á síðasta ári um hvað þeir ætluðu sér að gera á því ári sem nú er hafið til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Við munum jú eftir hástemmdum yfirlýsingum um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar síðastliðið sumar og því þess að vænta að eitthvað væri í vændum. Því miður þá var ekkert bitastætt í svörum ráðherranna. Ekkert bólar á einhverjum marktækum aðgerðum í þessum efnum.

Um leið og við horfum á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þá berast vikulega fréttir úr sjávarbyggðum um hópuppsagnir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirtæki, sem hafa verið burðarásar í sinni heimabyggð, þurfa nú að draga hressilega saman seglin með tilheyrandi uppsögnum. Ráðamenn þjóðarinnar verða að vakna af þyrnirósarsvefninum og horfast í augu við þá stöðu sem uppi er í byggðamálum í kjölfar arfavitlausrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um of mikinn niðurskurð á þorskkvóta. Í þessu ljósi er dapurlegt að sjá svör ráðherranna í nýju ríkisstjórninni um væntanlegar aðgerðir í byggðamálum. Þar er nær ekkert að finna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband