9.1.2008 | 15:15
Forysta ríkisstjórnarinnar er í útlöndum
Eitt stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir er að stuðla að því að raunhæfir kjarasamningar náist á vinnumarkaðnum. Kjaraviðræðurnar verða að þessu sinni erfiðar viðureignar.
Við framsóknarmenn gagnrýndum ríkisstjórnarflokkanna harðlega í fjárlagavinnunni í haust vegna gríðarlegrar útgjaldaaukningar ríkissjóðs. Sú gagnrýni var ekki út í bláinn, enda öllum ljóst að ríkisstjórnin þyrfti einnig að koma að kjarasamningum með einum eða öðrum hætti og því segði fjárlagagerðin ekki alla söguna. Ríkisstjórnin hlustaði ekkert á aðvörunarorða þingmanna Framsóknarflokksins, OECD, Standard og Poors, Seðlabankans, aðila vinnumarkaðarins, greiningardeilda bankanna og áfram mætti telja. Útgjöld ríkissjóðs hækkuðu um tæp 20% á milli ára þrátt fyrir öll varnaðarorð.
Það er svo komið á daginn núna, vegna eyðslugleði stjórnarflokkanna í haust, að mjög takmarkaðir fjármunir eru nú til skiptanna vegna aðkomu ríkisins að kjarasamningum. Alþýðusamband Íslands er á gluggum forsætisráðuneytisins en þar er enginn heima. Geir er erlendis, Ingibjörg Sólrún er erlendis og ekkert heyrist frá ráðherra atvinnumála, Jóhönnu Sigurðardóttur. Samt hafa aðilar vinnumarkaðarins sagt að þessi vika ráði úrslitum í viðræðunum, ella verði deilunni skotið til ríkissáttasemjara. En höfuð ríkisstjórnarinnar hafa yfirgefið landið, það eru trúlega önnur stærri og meira aðkallandi vandamál sem forsætis- og utanríkisráðherrann eru að sinna þar. Er nema von að þessi ríkisstjórn sé nefnd máttlaus og daufgerð?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook