13.1.2008 | 18:55
Samfylkingin þarf að halda annan fund á Húsavík!
Á fjölmennum stjórnmálafundi á Húsavík í síðustu viku, sem Samfylkingin hélt, lýsti Össur Skarphéðinsson því yfir að enginn ráðherra úr sínum herbúðum hefði talað gegn uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Þetta er reyndar í takt við það sem að báðir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi stögluðust á fyrir síðustu kosningar, að næsta álver myndi rísa á Húsavík og það innan einungis nokkurra ára. Þessi málflutningur þremenninganna var og er náttúrulega bara ósannur eins og komið hefur á daginn.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur nefnilega margoft komið með yfirlýsingar um andstöðu við frekari stóriðjuuppbyggingu hér á landi, þar með talið í Þingeyjarsýslum. Hún staðfesti þessa stefnu sína í sjónvarpsviðtali í síðustu viku. Þar með er það endanlega komið á hreint, rétt eins og ég hef bent á hér á blogginu, að umhverfisráðherrann í ríkisstjórninni er á móti þessari uppbyggingu. Þar með hefur Samfylkingin lagt stein í götu þessarar uppbyggingar sem myndi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulíf í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum.
Samfylkingin getur einfaldlega ekki talað tungum tveim í máli sem þessu. Og það er líka rangt hjá Össuri þegar hann heldur því fram að ríkisstjórnin geti ekki gert neitt til að koma þessu máli áfram. Það er alveg ljóst að þau fyrirtæki sem hafa hug á því að leggjast út í gríðarlega fjárfestingu sem í þessu verkefnum felast, fara ekki í slíkar framkvæmdir ef stjórnvöld eru á móti slíkri uppbyggingu. Einnig má horfa til mengunarkvóta í þessu samhengi, þar sem þessi framkvæmd er utan höfuðborgarsvæðisins og mætti nýta sem verkfæri í byggðastefnu stjórnvalda. En Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur ítrekað andmælt uppbyggingu af þessu tagi. Því miður hefur Samfylkingin talað tungum tveim og það er Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sem situr við stjórnvölinn. Sá ráðherra hefur greinilega ekki mikinn skilning á aðstæðum í byggðarlögum á Norðurlandi eystra.
Ætti Samfylkingin, í sinni fundaherferð, ekki að halda annan stjórnmálafund á Húsavík? Gestur fundarins yrði þá aðeins einn, Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook