21.1.2008 | 16:28
Jóhönnunefndin hefur loksins skilað af sér, en hvað svo?
Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í húsnæðismálin í þinginu nú áðan í ljósi þeirra staðreynda að ungt fólk getur vart orðið leigt eða keypt húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin átti að skila af sér 1. nóvember síðastliðinn en það er ekki fyrr en nú á nýju ári, seinnipart janúarmánaðar, sem tillögur nefndarinnar liggja fyrir. En það sem verra er að við þingmenn fáum ekki að sjá hverjar tillögurnar eru. Af svörum ráðherrans að dæma er málið stopp í ríkisstjórn og er enn langt í land með að einhverra aðgerða sé að vænta til að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaðnum. Því miður.
Ég hef áður vakið máls á því hér á blogginu að skynsamlegast væri fyrir ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn af fara sparlega með miklar yfirlýsingar eins og Jóhanna hefur verið iðin við. Hún hefur nefnilega með tali sínu um að neyðarástand ríkti á húsnæðismarkaðnum og að aðgerða væri þörf, vakið upp gríðarlega miklar væntingar hjá fólki sem er í erfiðri stöðu á húsnæðismarkaðnum.
Nú er það komið á daginn að Jóhanna Sigurðardóttir þarf að éta ofan í sig öll gífuryrðin og loforðin sem hún hefur viðhaft. En ætli hún sé eini ráðherrann, í annars yfirlýsingaglaðri ríkisstjórn, sem hefur og á eftir að gera það?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook