22.1.2008 | 15:37
Ætlum við að steypa ríkissjóði í botnlausar skuldir, aftur?
Í upphafi þings í dag kvaddi Bjarni Harðarson sér hljóðs um stöðu efnahagsmála, sannarlega ekki að ástæðulausu. Ég tók þátt í umræðunni og benti á þann tvískinnungshátt stjórnarliða sem töluðu fyrir því að nú þyrftu stjórnmálamenn að taka á erfiðleikum efnahagslífsins í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Ég benti þeim hinum sömu á að við framsóknarmenn töluðum sérstaklega fyrir því í fjárlagagerðinni síðastliðið haust Þá bentu aðilar vinnumarkaðarins og allir helstu sérfræðingar í efnahagsmálum ríkisstjórninni á að sína aðhald við fjárlagagerðina. Ekkert var farið eftir því, útgjaldarammi fjárlaga hækkaði þá um tæp 20% á milli ára. Ríkisstjórnarflokkarnir skrúfuðu hressilega frá útgjaldakrananum og nú verður ekki aftur snúið.
Það er nefnilega ekki nóg að koma nú fram og segja að við eigum að hlusta á þá aðila sem eru sérfróðir um efnahagsmálin. Einnig kom fram hjá stjórnarliðum að ríkið muni koma að kjarasamningum, ætli að það hefði ekki verið auðveldara í framkvæmd ef að fjárlögin væru ekki svo útþanin sem raun ber vitni? Við höfum ekki séð slíkar hækkanir á útgjaldaramma fjárlaga síðan fyrir þjóðarsáttasamninga.
Einnig benti ég á að alþingismenn eru vörslumenn ríkissjóðs. Nú er ljóst að fjármagnstekjuskattur, veltuskattar ýmiskonar og fleiri tekjustofnar munu dragast saman, frá því sem áður var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Á meðan stórhækka útgjöld ríkissjóðs. Þetta þýðir afturhvarf til fortíðar, þ.e.a.s. aftur til skuldasöfnunar hjá ríkissjóði. Það er þvert á þau markmið sem við framsóknarmenn höfðum þegar við vorum í ríkisstjórn. Tókum við ríkissjóði stórskuldugum 1995, skiluðum skuldlausum ríkissjóði. En nú er víst eitthvað annað upp á teningnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Facebook