22.1.2008 | 18:15
Mikil tímamót - Björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri
Ég mælti nú áðan fyrir þingsályktunartillögu um staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Ég hef farið yfir þetta mál hér áður á blogginu mínu enda mun staðsetning þyrlu á Akureyri auka mjög á öryggi sjófarenda, íbúa og ferðalanga á Norður og Austurlandi. Þeir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni lýstu sig allir hlynnta því að björgunarþyrla yrði staðsett á Akureyri. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tók þátt í umræðunni og fór vel yfir þetta mál. Við lok ræðu sinnar lýsti ráðherra því yfir að það ætti í framtíðinni að tryggja að Landhelgisgæslan geti haldið úti björgunarþyrlu frá Akureyri. Það er því ekki spurning hvort heldur hvenær björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri. Þetta eru mikil tímamót að mínu mati.
Björn Bjarnason tók að sér það erfiða verkefni árið 2006, í kjölfar brotthvarfs Varnaliðsins, að byggja upp þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar. Þetta verkefni hófst í tíð samstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Björn hefur stýrt þessari uppbyggingu af metnaði og myndugleika og á hrós skilið. Ég hældi honum í þinginu áðan fyrir að halda þeim metnaði sem hann sýndi í sínum störfum í samstarfi við okkur framsóknarmenn, þrátt fyrir að vera kominn með miklu síðri félaga í ríkisstjórn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Facebook