28.1.2008 | 11:30
Framsóknarflokkurinn á höfuðborgarsvæðinu
Það er sagt að fjölmiðlar séu 4. valdið og það er ekki ofsögum sagt. Fjölmiðlamenn geta nefnilega haft mikil áhrif á umræðuna. Egill Helgason ásamt fleiri fjölmiðlamönnum staglast á því þessa dagana að Framsóknarflokkurinn sé kominn upp í sveit, eigi sér ekki viðreisnar von á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru efnislega þau skilaboð sem að koma fram í vikulegum þáttum Egils Helgasonar.
Nú er það svo að síðustu rúm 13 árin hefur Framsóknarflokkurinn verið við stjórnvölinn í Reykjavík. Trúlega hefur enginn stjórnmálaflokkur haft eins mikil áhrif á gang mála í höfuðborginni en Framsóknarflokkurinn á síðustu árum. Framsóknarflokkurinn hefur einnig átt aðild að meirihluta í Kópavogi frá árinu 1990 og bæjarstjórinn, Sigurður Geirdal heitinn, var framsóknarmaður. Mjög stór grasrót flokksmanna er að finna í öðrum bæjarfélögum á suðvesturhorni landsins. Í ljósi þessa er því fráleitt að halda því fram að Framsóknarflokkurinn sé kominn upp í sveit, hvað sem það nú þýðir? Ef það er vegna þess að Guðni Ágústsson er formaður flokksins þá er það nú einu sinni þannig að Guðni er mjög vinsæll stjórnmálamaður um allt land, líka á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel að undanförnu í mjög erfiðum málum innan flokksins og sýnt með því þá miklu forystuhæfileika sem hann býr yfir.
Framsóknarflokkurinn sem frjálslyndur umbótaflokkur hefur haft mjög sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu um allt land. Í flokknum eru um 12.000 manns sem segir okkur að Framsóknarflokkurinn er ein stærsta fjöldahreyfing í landinu. Þó svo að vissulega hafi gefið á bátinn að undanförnu, eins og hjá öðrum stjórnmálaflokkum, þá á Framsóknarflokkurinn mikla möguleika á því að eflast til muna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Að því er stefnt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook