1.2.2008 | 18:27
Óvinsæll "meirihluti"
Það fór eins og mig grunaði, að einungis 27% Reykvíkinga eru ánægð með nýjan meirihluta í Reykjavík. Félög innan Sjálfstæðisflokksins hafa keppst við að lýsa yfir þvílíkri ánægju með nýjan meirihluta að sjaldan hefur annað eins heyrst. Þeir hafa þannig reynt að sannfæra stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og almenning um hversu æðislegur þessi nýi meirihluti sé. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru greinilega komnir langt frá hinum venjulega kjósenda, það hljóta allir að sjá. Ég ætla ekki að fjalla um ótrúlegar óvinsældir Ólafs F. enda kemur þar ekki margt á óvart.
Ég er ekki í vafa um að Sjálfstæðisflokkurinn mun bíða mikinn skaða af þessum nýja meirihluta. Það tók ekki nema örfáar klukkustundir að mynda nýja meirihlutann, þ.e. að ganga frá málefnasamningi og hver ætti að fá hvað. Það tók ekki nema nokkra daga að kaupa 3 hús við Laugarveginn sem mun kosta borgarbúa hundruð milljóna. Trúlega eru þessi kaup fordæmisgefandi þannig að hugsanlega þurfa borgarbúar að greiða milljarða vegna þessara ákvarðana. Þeim milljörðum verður alla vega ekki varið til að bæta kjör þeirra sem hvað verst hafa það, ekki munu þessir fjármunir fara til kaupa á fleiri félagslegum leiguíbúðum eða til fleiri hjúkrunarrýma. Svona mætti áfram telja. En mikilvægt er að hafa í huga, þegar horft er upp á þessi flausturslegu vinnubrögð, að það er almenningur sem hefur falið þessum stjórnmálamönnum að höndla með sameiginlega fjármuni Reykvíkinga. Einungis 27% þeirra sem greiða sína skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar treysta þessum nýja "meirihluta".
Fáir ánægðir með nýjan meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook