Stórt klúður ríkisstjórnarinnar

Það var dæmalaust að fylgjast með hinni nýju ríkisstjórn taka sín fyrstu skref síðastliðið sumar. Þeirrar ríkisstjórnar sem vill kenna sig við samráðsstjórnmál. Þá beitti sjávarútvegsráðherra sér fyrir því að skerða þorskkvótann niður um þriðjung. Hagsmunaaðilar bentu margir á að þetta dæmi myndi einfaldlega ekki ganga upp og nú sýnist mér fyrirsjáanlegt að þessa ákvörðun ráðherra verði að endurskoða á næstu vikum. Við framsóknarmenn vildum ganga skemur í niðurskurðinum, rétt eins og margir aðrir á þeim tíma. Ef farið hefði verið að þeim tillögum væri ástandið þó skárra en það er í dag í sjávarbyggðum landsins.

En í ljósi þessa mikla niðurskurðar steig Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fram og tilkynnti að nú yrði farið í mestu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar. Það lyftist brúnin á mörgum við þessa yfirlýsingu en orð eru ekki alltaf það sama og efndir. Að minnsta kosti ekki hjá þessari ríkisstjórn. Ég get ekki sagt annað en að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar að stjörnuráðherrarnir fjórir kynntu tillögurnar á blaðamannafundi stuttu síðar. Megin málflutningur þeirra á þeim fundi var að hæla hver öðrum, hversu gríðarlega vel þeir hefðu staðið sig við gerð aðgerðaáætlunarinnar. Enda var bara létt yfir þeim á þessum blaðamannafundi.

Ríkisstjórninni var bent á það frá upphafi að þessar aðgerðir væru ekki nægjanlegar og við í Framsókn komum með tillögur að mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin gerði náttúrulega ekkert með. Nú, við upphaf ársins 2008, þegar mörg hundruð störf hafa tapast úr íslenskum sjávarútvegi þá vaknar ríkisstjórnin af þyrnirósarsvefninum. Nú á að endurskoða þessar stórkostlegu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Var við öðru að búast en að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar myndu skila takmörkuðum árangri? Samtök sjómanna, útgerða, fiskvinnslu, sveitarfélögin og fleiri bentu á að ekkert samráð var haft við þau þegar mótvægisaðgerðirnar voru mótaðar. Ætli að Össur og félagar hans hafi ekki lært eitthvað af þessu í þeim samræðu- og samráðsstjórnmálunum sem Samfylkingin boðaði síðastliðið vor?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband