Ráðvilltur forsætisráðherra

Það var kyndugt að sjá viðbrögð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, við fyrirspurnum Valgerðar Sverris og Steingríms J. um hvert ríkisstjórnin stefndi í gjaldmiðilsmálum. Ástæða þessara fyrirspurna eru dæmalaust misvísandi málflutningur ríkisstjórnarinnar. Ingibjörg Sólrún segir eitt, Þorgerður Katrín annað, Björgvin G. það þriðja og síðan segir Geir ekki neitt. Geir sagði nefnilega eiginlega ekki neitt í umræðunni í dag. Hann er ekki eins yfirlýsingaglaður og meðreiðarsveinar hans í ríkisstjórninni, hann hefur greinilega enga stjórn á sínu fólki.

Það er náttúrulega ekki boðlegt að búa við ríkisstjórn sem er svo ósamstíga í einu mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar. Enda kom Bjarni Benediktsson, framtíðarforingi Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins, fram á dögunum og kvartaði undan blaðri Samfylkingarinnar um Evrópumálin. Það er greinilega vaxandi pirringur á milli stjórnarflokkanna. Framundan eru erfiðar kjarasamningaviðræður sem munu reyna allverulega á stjórnarsamstarfið og menn eru strax orðnir móðir á ríkisstjórnarheimilinu. Það mun því reyna á þanþol ríkisstjórnarinnar á næstunni. Það er nefnilega ekki bara nóg að búa við stóran meirihluta, menn verða líka að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Geir H. Haarde gengur ekkert í þeim efnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband