Nauðvörn Össurar Skarphéðinssonar

Össur Skarphéðinsson ræðir á heimasíðu sinni um stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum og vill meina að flokkurinn hafi tvær til þrjár stefnur þegar kemur að Evrunni og aðildinni að Evrópusambandinu.

Það er nú einu sinni þannig, þegar að Össur á í hlut, að sannleikurinn er ekki neitt sérstakt aðalatriði. Ari fróði sagði hér forðum: „Hafa skal það sem sannara reynist“, en mottó Össurar hefur löngum verið: „Hafa skal það sem betur hljómar... hverju sinni“. Enda hefur ráðherrann löngum þótt skemmtilegur en oft ekki sérstaklega trúverðugur eða hafa staðfasta sannfæringu í málum, eins og fylgjendur samstarfsflokks hans í ríkisstjórninni hafa oft gert að umfjöllunarefni.

Stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum hefur alla tíð legið fyrir og reyndar hefur ekki í neinum öðrum íslenskum stjórnmálaflokki farið fram eins mikil umræða um Evrópumál og í Framsóknarflokknum. Við framsóknarmenn lögðum þannig mikla vinnu í það á árunum 2000-2001, með skipan nefndar innan flokksins, að ræða samskiptin og hugsanlega samninga við ESB. Þessu fylgdum við eftir á síðasta flokksþingi okkar með mótun samningsmarkmiða ef til mögulegra aðildarviðræðna kæmi. Sérstök Evrópunefnd innan flokksins undirbjó þá vinnu og skilaði vandaðri skýrslu um Evrópumál sem nálgast má á heimasíðu flokksins. Framsókn hefur einnig oftsinnis ályktað um þessi mál og hljómaði ályktun síðasta flokksþings um Evrópumál á eftirfarandi hátt:

Samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggjast fyrst og fremst á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Full ástæða er til þess að þróa frekar það samstarf þar sem það á við. Langvarandi jafnvægi og varanlegur stöðugleiki í efnahagsmálum er ein meginforsenda hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu. Þannig geta Íslendingar byggt ákvarðanir sínar á styrkleika og í samræmi við sinn eigin þjóðarmetnað, sem frjáls þjóð.

Framsóknarflokkurinn vill byggja á EES samningnum í samskiptum við Evrópusambandið, hann hefur gagnast Íslendingum vel. Ef til hugsanlegrar aðildarviðræðna kæmi þá þarf að ríkja stöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Því er aldeilis ekki fyrir að fara eins og alþjóð veit og hin ábyrga efnahagsstefna sem Samfylkingin boðaði fyrir kosningar, með skýrslu Jóns Sigurðssonar fyrrverandi krataráðherra, liggur núna vafalítið í skúffu í iðnaðarráðuneytinu. Svo mikið er víst að útgjaldaaustrið og skortur ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna á ábyrgni í vinnubrögðum í fjárlagagerðinni mun ekki hjálpa til í þessum efnum. Samfylkingin er því sjálfri sér verst þegar kemur að Evrópumálum.

Stefna Framsóknarflokksins er hins vegar skýr hvað þetta varðar eins og hér hefur verið rakið. Við þessu má svo því bæta að nú hefur verið settur á fót starfshópur innan flokksins til að fjalla um gjaldmiðilsmálin. Framsóknarflokkurinn er því að beita sér fyrir því að halda úti málefnalegri umræðu um þessi mál, og mættu aðrir taka sér það til fyrirmyndar.

Hins vegar er dapurlegt að sjá Össur reyna að drepa málum á dreif þegar kemur að „út og suður“ stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum gjaldmiðilsins og ESB. Reyndar er það svo að ráðherrann er mest erlendis að sinna útrásarverkefnum og er þar með fína og fræga fólkinu sem hann tilgreinir á sinni heimasíðu. Kannski að ráðherrann hafi verið of mikið fjarverandi að undanförnu þannig að misvísandi skilaboð ráðherra í hans eigin ríkisstjórn hafi farið fram hjá honum?

Er ekki tími til kominn að Össur fari að sinna sínum störfum hérlendis til tilbreytingar? Hans fyrsta verk gæti til að mynda verið það að endurskoða „stórkostlegustu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar“ sem hann kynnti síðastliðið sumar. Ekki er vanþörf á þar sem uppsagnir hrannast upp hjá útgerðarfyrirtækjunum á sama tíma sem „störf án staðsetningar“ virðast leita til höfuðborgarinnar. Enda hafa forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra fellt þann dóm að mótvægisaðgerðir Össurar Skarphéðinssonar þarfnist endurskoðunar við.

Til að leyfa ráðherranum að njóta sanngirni þá vil ég hrósa honum fyrir skemmtileg skrif og mikla elju við þau öllum stundum sólahringsins. Sömuleiðis fyrir mikla viðleitni við að læra og reyna að beita smjörklípuaðferð fyrrverandi forsætisráðherra. Æfingin skapar meistarann og ef til vill kemst ráðherrann með tímanum betur á lagið með að beina sjónum manna frá vandræðaganginum innan ríkisstjórnarinnar, umdeildum ráðningarmálum og ýmsu því sem hann og „pater familias“ þurfa að glíma við þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband