Fyrirspurnir til ráðherra

Ég sendi nokkrar fyrirspurnir til ráðherra í þinginu í gær. Það verður áhugavert að heyra svör ráðherranna við þeim. En meðal annars spyr ég eftirfarandi spurninga:

Menntamálaráðherra spyr ég hvort hún ætli að beita sér fyrir að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis eins og Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar. Hvað líði endurskoðun á framfærslugrunni Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hvort að ráðherrann vilji beita sér fyrir því að stofnuð verði heildar hagsmunasamtök framhaldsskólanemenda á ný.

Samgönguráðherra spyr ég um hvað líði útboði lengingar Akureyrarflugvallar og útboði á Vaðlaheiðargöngum. Eins og margir muna þá var helsta loforð Kristjáns Möller fyrir síðustu kosningar; Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, strax! Nú er árið 2008 runnið upp og ekkert að frétta af þessari mikilvægu framkvæmd.

Umhverfisráðherra spyr ég um málefni Náttúrufræðistofnunar, hvort að hún hyggist beita sér fyrir eflingu starfsemi stofnunarinnar á Akureyri. Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr um þetta því ráðherrann hefur sérstaklega beitt sér fyrir að færa störf af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins það sem af er. Hún beitti sér fyrir því að leggja niður forstöðumannsstarf Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar (sem var á Akureyri en flutt suður) sem og að auglýsa starf yfirmanns Vatnajökulsþjóðgarðs án staðsetningar (sem verður þá trúlega staðsettur á höfuðborgarsvæðinu en ekki í þjóðgarðinum). Hugstakið störf án staðsetningar sem Samfylkingin boðaði síðasta vor hafa því öðlast nýja merkingu í mínum huga.

En eins og ég segi, það verður fróðlegt að heyra svör ráðherranna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband